Monday, January 24, 2005

Merkilegt er að sjá hvernig fylgismenn Íraqsstríðsins þræta fyrir að nokkuð hafi verið óeðlilegt við ákvörðunartökuna á Íslandi. Í fyrsta lagi er það í hæsta máta ólýðræðislegt að tveir menn ákveði að skuldbinda Ísland til stuðnings við stríð. Lýðræði er aðferð. Ef lýðræðislegri aðferð er ekki beitt til að taka ákvörðun getur hún varla kallast lýðræðisleg, eða hvað? Tveggja manna ákvörðun er ekki lýðræðisleg.



Jón Einarsson skrifar á Tímann:
„Á þeim tímum sem við lifum á ... er athyglisvert að menn skuli hafa til þess samvisku að sóa peningum í rándýrar pennavinaauglýsingar í útlendum stórblöðum. Þessir peningar hefðu getað dugað til að bora brunna í Afríku. Þessir peningar hefðu getað greitt fyrir lyf og læknishjálp til þurfandi í sunnanverðri Afríku. Þessir peningar hefðu getað gert gagn í hjálparstarfinu vegna flóðanna í suðaustur-Asíu.“


Þetta er nú góð spurning. Ef þessar milljónir sem auglýsingin í NYT kostaði hefðu getað bjargað mörgum mannslífum, hvað hefði þá mátt bjarga mörgum mannslífum með peningunum sem Íraqsstríðið hefur kostað? Eða, hvað hefði mátt þyrma mörgum mannslífum með því að verja þeim í annað en morð? Nei, ég bara spyr.



Á hinu pólítíska fótboltamóti halda menn með sínu liði. Sá sem er með manni í liði hefur alltaf rétt fyrir sér, sá sem er í hinu liðinu alltaf rangt. Hvernig getur Jón Einarsson annað en þverneitað því sem alþjóð sér, að Guðni Ágústsson sé tvísaga? Hvernig getur hann annað?

Mekilegast finnst mér samt hvernig það er eins og hægrimenn skilji ekki í því, að fólk geti verið á móti stríði. Íraqstríðið er ekki einhver boxhanski til að lumbra á pólítískum andstæðingum: Það er stríð. Það er verið að myrða fólk og Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson veita þessu hroðaverki pólítískan stuðning. Þriðja særsta borg Íraqs var jöfnuð við jörðu fyrir skemmstu. Tugþúsundir liggja í valnum. Ztyrmir Gunnarsson ritaði í gær: „[Össur og Ingibjörg] leggja mikla áherzlu á að berja á stjórnarflokkunum út af Íraksstríðinu.“ Ég er enginn sérstakur aðdáandi Össurar eða Ingibjargar, en ég tek því sem hrienni og beinni móðgun ef því er haldið fram að andstæðingum stríðsins gangi það eitt til, að berja á stjórnarflokkunum. Þetta lýsir kannski innræti zumra betur en annarra.



Ég tek samt undir með Styrmi í Reykjavíkurbréfi gærdagsins, ef Samfylkingin kallar sig jafnaðarflokk, hvar er þá jafnaðarmennskan? Hvers vegna gerir Samfylkingin þá ekki athugasemdir við þá geysilegu auðsöfnun á fárra hendur sem undanfarið hefur tröllriðið Íslandi?



(Og sjáið bls. 30 í Fréttablaðinu í dag.)

No comments:

Post a Comment