Wednesday, April 13, 2011

Vantraust á stjórnarandstöðuna

Ég get ekki sagt að ég treysti ríkisstjórninni, nema þá með neikvæðum formerkjum. En í svipinn er ekkert skárra stjórnarmynstur í sjónmáli, þannig að ef ég væri alþingismaður mundi ég hiklaust verja ríkisstjórnina vantrausti. Það væri eiginlega meiri ástæða til að samþykkja vantraust á stjórnarandstöðuna. Eiginlega væri ástæða til að gera byltingu gegn henni, ef það væri hægt. Vantraust á stjórnmálamenn er mjög mikið og mjög stór hluti kjósenda sem segist ekki vera ánægður með neinn flokk. Það getur hver sem er túlkað það eins og hann vill, en ég ætla að leyfa mér að túlka það þannig að það séu ekki stjórnmál sem slík, heldur borgaraleg stjórnmál sem hefur þrotið erindið.

Kosningasigur Besta flokksins sl. vor var harkalegt öskur á breytingar, sem verða ekki framkvæmdar með borgaralegum aðferðum. Besti flokkurinn hefur rekið sig á þann sama vegg og allir hinir flokkarnir. Borgaraleg stjórnmál eru komin að endimörkunum; vandamálin sem við stöndum frammi fyrir verða ekki leyst öðruvísi en með stéttabaráttu. Það þýðir að borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru beinlínis ófærir um að leysa málin. Ég túlka hina útbreiddu óánægju með öðrum orðum þannig, að hér sé orðið til pláss fyrir flokk sem er reiðubúinn til að leggja til atlögu við auðvaldsskipulagið.

No comments:

Post a Comment