Thursday, March 24, 2011

Hvernig er heilsan? Þekki ég...?

Fyrir fáeinum dögum gekk ég nokkuð stóran hring um miðbæinn, sinnti nokkrum erindum og ók barnavagninum á undan mér. Í þessum göngutúr, sem stóð varla lengur en rúman klukkutíma, sá ég hvorki meira né minna en fimm sinnum eitthvert fólk sem mér fannst í fljótu bragði sem ég þekkti. Einu sinni þóttist ég sjá frv. samstarfskonu, einu sinni frv. stjórnarmeðlim í Félaginu Ísland-Palestína, einu sinni gamla bekkjarsystur og ég man ekki hver hin tvö áttu að vera. Ég sá svo á svipnum á öllum fimm að þau þekktu mig ekki, og voru heldur ekki þau sem mér þótti fyrst. Einkennilegt, verð ég að segja. Nú ... ég veit ekki nógu mikið um mannsheilann til að vita hvort það er til einhver ákveðin heilastöð sem geymir tilfinninguna "ah, þarna er einhver sem ég þekki" -- en ef sú heilastöð er til, þá datt mér helst í hug að það hefði orðið eitthvert skammhlaup í henni. Sú tilgáta styrkist líka af því að fjórum sinnum þennan sama dag byrjaði fólk samtal við mig á orðunum "hvernig er heilsan?" -- sem er svo sem ekki sjaldgæf kveðja, en sannarlega óvanalegt að heyra hana fjórum sinnum sama daginn.

No comments:

Post a Comment