Monday, June 20, 2011

Margrét Müller, síðbúin minningarorð

Eftir að ég kláraði Ísaksskóla vorið 1989, fór ég í Landakotsskóla. Hann hafði gott orð á sér og var auk þess næsti skóli við heimili mitt. Ég þurfti bara að fara yfir eina götu, hina rólegu Hávallagötu, og var þá sama og kominn. Ég var í Landakoti frá níu ára til tólf ára, fjóra vetur.

Þar var Margrét Müller, versti kennari sem ég hef á ævi minni haft. Meira en það, hún var langverst. Næstversti kennarinn hafði ekki tærnar þar sem hún hafði hælana. Hún var ósanngjörn, illgjörn, grimm, einstaklega fráhrindandi manneskja sem var gjörsamlega vanhæf til að sinna börnum. Hún hafði svo mörg sígild einkenni stereótýpískrar gribbu, að ef hún hefði verið persóna í leikriti eða skáldsögu hefðu gagnrýnendur sagt að höfundurinn væri að ýkja, svona væri enginn í alvörunni. Hún var fædd og uppalin í Þriðja ríkinu, talaði með sterkum þýskum hreim og bjó meira að segja í turni. Ég held að það hafi enginn saknað hennar þegar hún drap sig fyrir nokkrum árum, í það minnsta ekki ég. Ég hefði ekki óskað mínum versta óvini að vera nemdani hennar. Hún virðist ekki hafa meikað lífið eftir að séra Georg var dáinn, át risaskammt af pillum, stökk út úr turninum og lenti á stéttinni fyrir framan aðaldyrnar, um það bil tíu metrum fyrir neðan, um það leyti sem börnin voru að koma í skólann um morguninn.

Ég var nemandi Margrétar í fjóra vetur, frá níu ára til tólf ára aldurs. Ég var ekki sérstaklega berskjaldað barn, bjó í hverfinu, átti stabíla fjölskyldu og hafði þokkalegt atgervi. Hún tók mig ekki sérstaklega fyrir umfram önnur börn. Það átti víst enginn sjö dagana sæla sem hún kenndi, en hún tók sum börn fyrir, einkum þau sem áttu á einhvern hátt erfitt uppdráttar félagslega. Það voru ekki þagnir eða svipir sem hún notaði, heldur illmælgi, háð, ósvífni og rógur. Hún hikaði ekki við að niðurlægja okkur fyrir framan allan bekkinn. Ég held að hún hafi ekki farið neitt verr með mig, persónulega, heldur en önnur börn, ég fór ekki varhluta af henni. Það eru tuttugu ár liðin, og það hefur fennt yfir ýmislegt, en mér er til dæmis minnisstætt þegar ég skrifaði stíl, á að giska tíu ára gamall, færði henni og hún fussaði (með sínum þýska hreim) að þetta væri bull og drasl. Hún reif síðan stílinn minn í tætlur og grýtti honum í ruslafötuna, fyrir framan allan bekkinn, og skipaði mér að skrifa nýjan stíl, sem ég gerði. Síðar um daginn hitti ég vin minn, sem var í næsta árgangi á eftir. Hún hafði kennt þeim í næstu kennslustund og viti menn, dregið þá upp stílinn minn, sem hún hafði tekið aftur upp úr ruslinu í frímínútunum og límt saman með límbandi. Tilgangurinn var að sýna hinum bekknum hvað ég hefði skrifað ööömurlegan stíl.

Margrét sagði sama bekk – árgangnum sem var ári yngri en ég – að hún „gæti ekki kúkað“ og væri með „rassgat úr plasti“. Hún hefur væntanlega meint að hún væri með stómíu, en við vissum ekki hvað það var og fylltum upp í með ímyndunaraflinu. Mér finnst það einhvern veginn ekki við hæfi að segja níu eða tíu ára börnum svona. Nú, einu sinni þegar ég var veikur heima, greip hún tækifærið og ásakaði tvo bekkjarbræður mína (ranglega) um að vera alltaf að fara heim til mín „og tæma ísskápinn“. Einn félaga, sem hafði verið veikur, ásakaði hún um að hafa verið að ljúga því. Einu sinni saumaði bekkjarbróðir minn handavinnuverkefni sitt fast við buxurnar sínar. Hún engdist um af hlátri yfir því hvað hann væri heimskur, fyrir framan allan bekkinn. Ég man líka þegar hún sagði okkur að Hitler hefði ekki verið slæmur maður, hann hefði endurreist Þýskaland, meðal annars útrýmt atvinnuleysi og lagt hraðbrautir.

Ég hef einu sinni á ævinni farið í verkfall. Það var ekki þegar ég var orðinn fullorðinn og verkalýðssinni, heldur var ég ellefu ára. Þá var mér svo nóg boðið af skólanum að ég neitaði bara að fara. Mórallinn í bekknum var vondur, mikil stríðni, mikið einelti, en ekkert vó jafn þungt og Margrét Müller. Þannig að ég neitaði bara að fara í skólann. Ég gat verið mjög ákveðinn, og foreldrar mínir reyndu ekki að pína mig í skólann, svo ég var heima í viku. Þá fór ég einn daginn og „sættist“ við sr. Georg, skólastjórann, og mætti svo daginn eftir eins og ekkert hefði í skorist.

Ég held að vir höfum verið 25 í bekknum í 9 ára bekk, en vorum ekki fleiri en 15 sem kláruðum 12 ára bekk. Um helmingurinn hafði hætt en nokkrir bæst við. Þeir sem hættu fóru margir í Melaskóla eða Vesturbæjarskóla – ástæðan var s.s. oft ekki búferlaflutningar. Þeir sem byrjuðu entust mislengi. Sumir voru að flýja einelti annars staðar og Landakotsskóli var ekki rétti staðurinn fyrir þá að byrja nýtt líf, heldur ormagryfja.

Landakotsskóli mátti eiga það að hafa bólusett mig fyrir kristindómi, með einstaklega óaðlaðandi nálgun sem var haldið að okkur.

Ég sá það glöggt, eins og allir nemendur Landakotsskóla, að þar var alls konar óviðeigandi tal og hegðun gagnvart börnum. Það var ekki bara andlegt ofbeldi. Ég man t.d. vel eftir því líka að hún bað okkur börnin um að gramsa í eldhússkápunum heima hjá okkur og vita hvort við fyndum nokkur eldhúsáhöld sem væru ekki í miklu brúki. Við gætum þá bara fært henni þau, hún gæti notað þau, og það væri meira að segja allt í lagi ef þau væru ekki í lagi. Hún gerði okkur út til að stela brauðristum af foreldrum okkar!

Já, alls konar óviðeigandi hegðun var daglegt brauð. En uppljóstrunin í Fréttatímanum sl. föstudag kom mér samt verulega á óvart. Mig óraði aldrei fyrir því að kynferðisglæpir gegn börnum hefðu verið í þessu líka. Þau Margrét og sr. Georg virkuðu á mig sem ströng, íhaldssöm og gamaldags, en það hafði satt að segja aldrei hvarflað að mér að þau væru öfuguggar. Ég hafði ekki hugmynd um það, en eftir á að hyggja man ég eftir ýmsu „smávegis“ sem gat bent í þessa átt og hefði kannski átt að hringja bjöllum hjá einhverjum, t.d. að Margrét hjálpaði börnum stundum óeðlilega mikið við að baða sig í sumarbúðunum Riftúni. Það var nett áfall að átta mig á að flest sem ég kann í skrift, reikningi, kristinfræði, handavinnu og matargerð, lærði ég af tveim barnaníðingum. Barnaníðingum segi ég, vegna þess að mér dettur ekki í hug að efast um frásagnirnar. Þær koma auk þess svo seint fram – þar sem þessi eftirminnilegu skötuhjú eru svo heppin að vera dauð og málin hvort sem er flest fyrnd – að þær geta varla verið hefnd. Það eiga örugglega eftir að koma fram fleiri frásagnir. En réttlætið hefur tvær hliðar, það er ekki bara að sá seki fái makleg málagjöld, heldur líka að fórnarlambið fái hlut sinn réttan. Ég á eftir að sjá kaþólsku kirkjuna gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.

23 comments:

 1. Og foreldrarnir hafa væntanlega ekkert brugðist við kvörtunum barnanna? Svo gónir fólk í forundran þegar ég segi að íslenskt samfélag einkennist af barnfyrirlitningu.

  ReplyDelete
 2. Sæll Vésteinn Valgarðsson,

  ég held ég geti sagt, að ég hafi verið fyrsti maðurinn sem benti opinberlega á þá illu manneskju sem Margrét Müller hafði að geyma. Ég skrifaði um það á blogginu mínu árið 2009: http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/889641/
  og svo aftur þann 17. júní, morguninn sem Fréttatíminnbirti frásagnir tveggja nafnlausra, manna, sem skv. Pressunni munu vera bræður. Hér getur þú lesið blogg mitt 17. júní:
  http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1174389/

  Mér finnst afar merkilegt að lesa frásögn þína, og staðfestir hún að vissu leyti það sem ég upplifði árið 1969 og 1970, löngu áður en þú komst í tæri við skrímslið Müller. Þetta sem þú skrifar um aðdáun hennar á Hitler, man ég í annarri mynd, því hún stærði sig af því að bróðir hennar hefði tekið í höndina á Hitler.

  En ég leyfi mér þó ekki að komast að sömu niðurstöðu og þú um Margréti Müller og sérstaklega Sr. Georg, þegar þú gerist dómsstjóri í dómstóli götunnar (sem mér finnst svo einkennandi fyrir ykkur á öfgafyllri vinstri vængnum í þjóðfélaginu). Nafnlausar ásakanir um barnaníð eru ekki sannanir fyrir barnaníði. Að ásakanirnar koma fram svo seint, finnast mér ekki vera nein góð rök fyrir því að líklegt sé að níðið hafi átt sér stað. Ég get aðeins trúað bræðrunum, sem nú áskaka presta um barnaníð, ef þeir koma fram undir nafni.

  Mitt minni segir mér, að Margrét Müller hafi verið mikið snobb og sleikjuháttur hennar við heldri borgarabörnin var annálaður. Börn heldri manna og góðra kaþólikka fengu sérmeðferð í Riftúni, t.d. börn Gunnars Eyjólfssonar. Þau voru elítan. Þau börn voru látin í friði og stjórnuðu öðrum börnum á svæðinu með umboði frá Müller. Þeir sem ekki voru kaþólikkar voru í hættu fyrir Müller. En ég man persónulega ekki eftir neinum kynferðislegum tilburðum Gogga við okkur drengina. Að mínu mati var hann maður af gamla skólanum, strangur en góður við börn.

  Ég veit ekki hvernig þið voruð böðuð á þínum tíma í Riftúni, en þegar ég var þarna var farið í bað í baðherbergi í aðalhúsinu, þar sem sr. Georg bjó með nokkrum nunnum. Þeir eldri böðuðu á baðherbergi, en þeir yngri í bölum í sama salnum, sem t.d. var líka notaður fyrir guðsþjónustur og innileiki, en stundum fórum við gangandi til Hveragerðis í sund. Margrét Müller tók þátt í þessari böðun, en þar voru líka nunnur, og man ég ekki eftir því að þær hefðu haft neina óeðlilega tilburði í frammi við okkur drengina, nema að hella of köldu vatni yfir höfuð okkar og láta of marga baða í sama óhreina vatninu. Á þeim tíma sem ég var þarna var ekki búið að koma hitaveitu til Riftúns og vatnið til böðunar kom úr stórum rafhitunarkatli sem alltaf var að bila. Við vorum því ekki alltaf hrein þarna, en vorum drifin í bað daginn áður en foreldrarnir komu í heimsókn.

  Minningar mínar frá Riftúni eru með þeim verstu úr lífi mínu, en ég var þegar á 7. aldursári sendur til sumardvalar hjá nunnunum í Stykkishólmi, þó ég væri ekki kaþólskur. Þar var unaðslegt að vera.

  Gæti verið að þú sért of dómharður, Vésteinn?

  Kveðja Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

  ReplyDelete
 3. Sæll Vésteinn Valgarðsson,

  ég held ég geti sagt, að ég hafi verið fyrsti maðurinn sem benti opinberlega á þá illu manneskju sem Margrét Müller hafði að geyma. Ég skrifaði um það á blogginu mínu árið 2009: http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/889641/
  og svo aftur þann 17. júní, morguninn sem Fréttatíminnbirti frásagnir tveggja nafnlausra, manna, sem skv. Pressunni munu vera bræður. Hér getur þú lesið blogg mitt 17. júní:
  http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1174389/

  Mér finnst afar merkilegt að lesa frásögn þína, og staðfestir hún að vissu leyti það sem ég upplifði árið 1969 og 1970, löngu áður en þú komst í tæri við skrímslið Müller. Þetta sem þú skrifar um aðdáun hennar á Hitler, man ég í annarri mynd, því hún stærði sig af því að bróðir hennar hefði tekið í höndina á Hitler.

  En ég leyfi mér þó ekki að komast að sömu niðurstöðu og þú um Margréti Müller og sérstaklega Sr. Georg, þegar þú gerist dómsstjóri í dómstóli götunnar (sem mér finnst svo einkennandi fyrir ykkur á öfgafyllri vinstri vængnum í þjóðfélaginu). Nafnlausar ásakanir um barnaníð eru ekki sannanir fyrir barnaníði. Að ásakanirnar koma fram svo seint, finnast mér ekki vera nein góð rök fyrir því að líklegt sé að níðið hafi átt sér stað. Ég get aðeins trúað bræðrunum, sem nú áskaka presta um barnaníð, ef þeir koma fram undir nafni.

  Mitt minni segir mér, að Margrét Müller hafi verið mikið snobb og sleikjuháttur hennar við heldri borgarabörnin var annálaður. Börn heldri manna og góðra kaþólikka fengu sérmeðferð í Riftúni, t.d. börn Gunnars Eyjólfssonar. Þau voru elítan. Þau börn voru látin í friði og stjórnuðu öðrum börnum á svæðinu með umboði frá Müller. Þeir sem ekki voru kaþólikkar voru í hættu fyrir Müller. En ég man persónulega ekki eftir neinum kynferðislegum tilburðum Gogga við okkur drengina. Að mínu mati var hann maður af gamla skólanum, strangur en góður við börn.

  Ég veit ekki hvernig þið voruð böðuð á þínum tíma í Riftúni, en þegar ég var þarna var farið í bað í baðherbergi í aðalhúsinu, þar sem sr. Georg bjó með nokkrum nunnum. Þeir eldri böðuðu á baðherbergi, en þeir yngri í bölum í sama salnum, sem t.d. var líka notaður fyrir guðsþjónustur og innileiki, en stundum fórum við gangandi til Hveragerðis í sund. Margrét Müller tók þátt í þessari böðun, en þar voru líka nunnur, og man ég ekki eftir því að þær hefðu haft neina óeðlilega tilburði í frammi við okkur drengina, nema að hella of köldu vatni yfir höfuð okkar og láta of marga baða í sama óhreina vatninu. Á þeim tíma sem ég var þarna var ekki búið að koma hitaveitu til Riftúns og vatnið til böðunar kom úr stórum rafhitunarkatli sem alltaf var að bila. Við vorum því ekki alltaf hrein þarna, en vorum drifin í bað daginn áður en foreldrarnir komu í heimsókn.

  Minningar mínar frá Riftúni eru með þeim verstu úr lífi mínu, en ég var þegar á 7. aldursári sendur til sumardvalar hjá nunnunum í Stykkishólmi, þó ég væri ekki kaþólskur. Þar var unaðslegt að vera.

  Gæti verið að þú sért of dómharður, Vésteinn?

  ReplyDelete
 4. Eva - að foreldrarnir hafi væntanlega ekkert brugðist við kvörtunum barnanna? - Sumu segja krakkar ekki frá. Sjálfur varð ég fyrir hastarlegu einelti einn vetur í gagnfræðaskóla, bæði af hálfu nemenda og skólastjórans. Skólastjórans! Gerði þó aldrei nokkurn skapaðan hlut af mér. En - ég sagði mömmu aldrei frá þessu. Var samt bara einn vetur í þessum skóla, neitaði að fara aftur. Átti eftir það mjög góða félaga og kennara í Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti og ekki síður í MR. En ég náði mér aldrei eftir þennan eina vetur. Ég var gerbreyttur. Einn vinur minn sagði við mig í fimmta bekk í MR: Brostu nú einu sinni í vetur, Hlynur minn, þó ekki væri nema einu sinni!

  - Hlynur Þór Magnússon

  ReplyDelete
 5. Vésteinn, fyrst þú varst svo vænn að sýna okkur hvernig vinstri menn og vantrúuð heldri manna börn bregðast við athugasemdum, skrifaði ég á mínu bloggi um hvernig þú fjarlægðir athugasemdir frá mér í dag og birti athugasemd mína:

  http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1174980/

  ReplyDelete
 6. Sæll gamli skólafélagi! Þessu er svo vel líst hjá þér. Ég man eftir því þegar ég var 7ára að hafa tekið þessa uppreisn að aldrei aftur skyldi ég mæta í skólann. Ég man þegar hún drap sig þá hugsaði ég, þetta var svona hennar síðasti terrorismi gagnvart nemendunum. Og ég man eftir plastendaþarminum og líka þegar hún sagðist ekki sofa í nærbuxum. Bjöllur !! En maður hugsar líka með hryllingi til þess að þau vildu ólm fá okkur til að gista í skólanum. Þessar nýju fréttir um þau koma mér ekki á óvart en mikið vildi ég að þau væru hérna til að fást við afleiðingar gjörða sinna. Kv Herborg Drífa

  ReplyDelete
 7. Vilhjálmur, um hvað ertu að tala? Ég hef ekki séð aðra athugasemd frá þér en þessa (kl. 5:52) og hef engri athugasemd eytt.

  ReplyDelete
 8. Ég var nemandi í skólanum í fyrsta og öðrum bekk 1986-1987 og fór svo í Vesturbæjarskóla. Ég upplifði ýmislegt þarna og sá Margréti níðast á börnum andlega og leggja þau sum í einelti. En aldrei grunaði mig að þau hefðu verið barnaníðngar.

  Þegar ég mætti í skólann einn daginn þá 7 ára gamall eftir að hafa verið veikur heima deginum áður sagði Margrét við mig eftir einn tímann. "Ólafur, ég veit að þú varst ekki veikur í gær, en hafðu engar áhyggjur, ég skal ekki borða þig í kvöldmatinn".
  Kv.Ólafur Gunnar Sævarsson.

  ReplyDelete
 9. Sum börn segja aldrei frá neinu en að heill barnaskóli með allt að 25 börn í bekk hafi bara þagað þunnu hljóði, það finnst mér ótrúlegt.

  ReplyDelete
 10. Eva, sum börn segja ekki, sum börn segja en er ekki trúað, sum börn segja og er trúað og eru tekin úr skólanum, sem mér er sagt að hafi stundum gerst.

  ReplyDelete
 11. "man ég eftir ýmsu „smávegis“ sem gat bent í þessa átt og hefði kannski átt að hringja bjöllum hjá einhverjum, t.d. að Margrét hjálpaði börnum stundum óeðlilega mikið við að baða sig í sumarbúðunum Riftúni"

  Bíddu var ég ekki bara að segja þér þetta um daginn?


  Börn segja ekki frá örugglega vegna þess til að mynda: Að þau eru börn, treysta fullorðnum og halda að hlutirnir eigi að vera einhvern veginn og kenna sjálfum sér.

  ReplyDelete
 12. Þú sagðir þetta um daginn en ég man eftir öðru tilfelli.

  ReplyDelete
 13. Ég var í Landakotskóla í 4 ár. Margrét kenndi mér í einn vetur. Þessar sögur af eineltinu og ruglinu í kringum Margréti eru alveg eins og ég upplifði þetta. Lenti aðeins í henni en slapp mikið betur en margir. Er örugglega aragrúi ef fyrrverandi nemendum sem hafa sína sögu af þessari konu. Séra Georg var ekki merkileg persona. Ekki eins heiftugur og kerlingin. Eitt skiptið lenti ég í einhverjum látum í Vestubæjarskólanum þegar við félaganir voru að spila fótbolta. Einhver fór í skólann og kvartaði undan okkur. Daginn eftir var Séra Georg alveg geggjaður og sagði að það yrði tekið á þessu í lok skóladags. Margrét sagði við mig að hún hefði líf mitt í hendi sér ég væri í svakalega slæmum málum. Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð svo í lok dagsin(mjög langur dagur hjá mér) kom Séra Georg og sagði mér að ég ætti einn sjens eftir og minntist ekkert meira á þetta. Ég tók þetta ekkert svo nærri mér hjeld bara að hlutinir ættu að vera svona. Þetta væri svo ægilega merkilegt fólk. Eftir að maður varð fullorðinn þá fattaði maður að þetta var auðvitað að framkoman var langt frá því að vera í lagi hjá þessum skötuhjúum.

  ReplyDelete
 14. Sæll, Vésteinn; Lýsingar þínar á dvölinni hjá ógæfuhjúunum í Landakotsskóla eru eins og talaðar út úr mínu hjarta -eða barnsminni. Eins er með lýsingar þeirra ótalmörgu, sem nú hafa tjáð sig um ömurlega vist hjá þessum sadistum. Því það voru þau vissulega, jafnvel þó að nýjustu upplýsingar um þau kæmu ekki til. En þeim trúi ég því miður fullkomlega. Vona að fólk taki svo eftir breiddinni í aldri þeirra sem hafa svipaðar sögur að segja. Þetta er fólk frá sjötugsaldri framundir barnsaldur í dag. Því þykir mér allt tal um að "tíðarandinn" hafi nú verið svona og svona "þá" hið aumasta yfirklór. Þau voru að hérumbil til hinsta dags. Ég var ein af þeim sem var trúað og fékk að sleppa, í miðjum átta ára bekk, enda tvö og hálft ár alveg nógu langur tími í umsjá þessa kexruglaða fólks -og barnaníðinga. Við vorum fleiri sem "sluppum" um svipað leiti og höfum verið að skiptast á reynslusögum æ síðan. Hefði gjarnan viljað koma frá mér "Landakotsannál" fyrir mörgum árum, en eftir Breiðavíkurhrylling o.fl. fannst mér að slíkar sögur hlytu að vera hjóm eitt í samanburði við það sem þar fór fram. Þó að enginn af mínum gömlu skólafélögum,þ.e. af þeim sem hafa haft samband við mig síðan greinin birtist í Fréttatímanum, efist um sannleiksgildi frásagna þar, erum við samt svona frekar miður okkar, að hafa verið í návígi við barnaníðinga fyrstu árin okkar í barnaskóla. Í minni upplifun var "faðir" George engu skárri en frálæn Muller, bara svona aðeins önnur týpa af sadista. "Syrgi" þó vissulega ótímabæran dauða þeirra. Hefði viljað sjá þau þola þá -reyndar réttlátu- niðurlægingu, sem þau fengu svo mikið kikk út úr að misbjóða með börnunum, sem þeim var trúað fyrir öll þessi ár.

  (Endalok M.M. minna síðan á japanska teiknimyndahryllingssögu. Vonda nornin veit að eftir að illi galdrakarlinn, verndari hennar, er allur, hljóta böndin að fara að berast að henni. Ákveður því í vonsku sinni að "gleðja" börnin í síðasta sinn...)

  ReplyDelete
 15. Þessi ath. mín hér að ofan átti alls ekki að vera nafnlaus, enda skrifa ég aldrei neitt sem ég tel mig ekki geta staðið við undir fullu nafni. Það virtist bara ekki hægt að birta þetta öðruvísi.
  Fékk kröfur um alls konar kerfi sem ég átti að skrá mig í þegar ég var að pósta þetta. Þætti því vænt um að þú settir nafnið við aths. mína.
  Með kveðju, Hildur Helga Sigurðardóttir.

  ReplyDelete
 16. Ég veit að þetta sem ég segi núna er að margra mati ,,aumasta yfirklór" en ég fór alltíeinu að velta fyrir mér hvað skyldi eiginlega hafa hent hennar eigin ómótuðu barnssál þar sem hún var sjálf að alast upp.

  Hvernig var æskulýðsstarfi Þriðja Ríkisins eiginlega háttað?

  Ég veit það ekki.

  ReplyDelete
 17. Ég var með Vésteini í bekk allan þennan tíma og get kvittað undir allt sem hann segir um þau skötuhjú (og bætt ýmsu við ef því er að skipta).
  Ég var í Landakoti nánast alla skólagönguna og þekkti ekkert annað. Öll börnin vissu að Margrét Möller væri vond, en mér þótti það ekkert óeðlilegt í sjálfu sér. Fannst einhvern veginn sjálfsagt að sumir kennarar væru góðir og aðrir vondir. (Vonda kennslukonan er þar að auki klassískt minni úr barnabókmenntum.)
  Svo var líka erfitt að greina á milli þess, hvenær þau voru ströng og hvenær þau voru bara illkvittin.
  Mér finnst ósanngjarnt að ráðast á fyrrverandi nemendur og foreldra þeirra fyrir að hafa ekkert aðhafst. Frekar myndi ég beina sjónum að þeim kennurum sem unnu við skólann í áraraðir og þögðu, allir bullandi meðvirkir. Þó þau hafi ekki vitað af perraskapnum, er mér augljóst sem fullorðnum manni að Margrét Möller átti alls ekki að fá að vinna með börn.

  Annað dæmi sem ýtir stoðum undir perraskap SG, sem ég man eftir í dag: Þegar við vorum tólf ára var byrjað með átak í hreinlæti. Nú skyldu allir strákarnir fara í sturtu eftir leikfimi. Það var í fyrsta og eina skipti sem ég sá séra Georg í leikfimishúsinu, en hann passaði upp á að það væri enginn fíflaskapur í sturtunni. Eru fleiri sem muna eftir þessu, eða er ég að skálda?

  Guðmundur Jón

  ReplyDelete
 18. Í Hitlersæskunni voru á sínum tíma um 9,2 milljónir ungmenna. Skipulag var því miður afar gott en málstaðurinn hryllilegur - menn yfirtóku Farfuglahreyfinguna (Wandervogel) börn og ungmenni á tímum kreppunnar fengu fullkomin viðleigubúnað, (má jafna við það að ungmenni dagsins í dag fái ókeypis flottustu föt, græjur og ferðalög við það eitt að ganga til liðs)starfsemin var afar skipulögð og byggðist á fjölmörgu því sem börn og ungmenni almennt hafa gaman af en allt innvinklað og tengt ramma nazismans - börnin og ungmenninn voru nýtt í að boða "fagnaðarerindið" og upplýsa um stjórnmálaskoðanir sinna nánustu m.m. Í stuttu máli má segja að allt hafi verið nýtt í þeim tilgangi að búa til "pólitíska tindáta" sem því miður tókst með (hræðilega) miklum ágætum. Baldur Von Schirach var hugmyndasmiðurinn. Þessa tíma hefur reynst erfitt að gera um m.a vegna þess hve þátttaka ungmenna var almenn. Þetta var mörgu þessu fólki afar erfið reynsla eftir á, og í rannsóknum sem komast lengst þá var fólk oftast spurt um þátttöku annara m.a. til þess að þurfa ekki að horfast í augu, með beinum hætti, við eigin reynslu. Það er af nægu að taka í þessum efnum en verður ekki gert á þessum vettvangi - ljóst er að margir þeirra sem ólust upp í þessu umhverfi biðu þess aldrei bætur - aðrir áttuðu sig og enn aðrir lifðu áratugum saman í nagandi efa og einhverjir gengu aldrei "af trúnni"
  Árni Guðmundsson sérfræðingur í æskulýðsmálum - Tómstunda- og félagsmálafræðibraut HÍ

  ReplyDelete
 19. Varðandi baðcommentið:
  Það er eins og mig minni að í Riftúni hafi ekki verið sturtur heldur þurftum við að fara inn í Hveragerði einu sinni í viku í sundlaugina til að þrífa okkur. Er þetta ekki rétt hjá mér? Var þarna 1981 og 1982.

  ReplyDelete
 20. Fyrir mér eru þeir sem koma fram og segja frá því hvernig þetta var algjörar hetjur. Þó að Breiðavíkurmálið, eða eitthvað annað hafi kannski verið alvarlegra, þá skiptir það engu máli. Þetta er ekki keppni.

  Það sem skiptir máli er að sannleikurinn komi fram. Því aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig.

  kv. Viðar F. Guðmundsson

  ReplyDelete
 21. Ég vona að fullorðnir læri af þessu að trúa börnum. Og líka það að mikilvægt er að ræða svona lagað við börn til að komast að því hvort þau séu að verða vitni að einhverju svona sem er ekki eðlilegt.

  ReplyDelete
 22. æi ekki var þetta nú góð minning, hún átti sínar góðu hliðar þrátt fyrir persónuleikagalla og hörku einstaka sinnum, vil frekar minnast hennar eins og í þessari grein http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1241884;minningar=1

  ReplyDelete
 23. Það er skondið frá því að segja, að ég var að finna kommentin frá Vilhjálmi sem hann var æfur yfir að ég eytt á sama andartakinu og hann setti þau inn. Það var ruslpóst-sían sem geymdi þau. Þau eru núna komin inn hér að ofan, þar sem áhugasamir geta séð þau.

  ReplyDelete