Sunday, April 10, 2011

Ríkisstjórnin og IceSave, tvennt ólíkt

Ég heyri víða fólks segja að margir hafi kosið "nei" í gær til þess að lýsa vanþóknun sinni á ríkisstjórninni. Ekki efa ég að það hafi haft sín áhrif. En af einhverjum ástæðum hef ég ekki heyrt hina hliðina nærri því eins oft: Að fólk hafi kosið "já" til þess að styðja ríkisstjórnina. Ég er ekki í vafa um að það hefur líka haft sín áhrif. Að minnsta kosti þekki ég fólk sem ég veit að nálgaðist þetta þannig. Það er auðvitað ómögulegt að meta stærð þessara hópa, þótt það væri fróðlegt.

Ég hef ekki nennt að fylgjast með allri þessari endalausu umræðu um IceSave-málið nýlega. Mér finnst lítið interressant að velta fyrir mér málalenginum samningsgreinum, spádómum um vexti eða túlkun á lögum, sem annar hver maður virðist vera orðinn sérfræðingur í. Kjarni málsins er miklu einfaldari en ætla mætti af umræðunni: Ranglátar skuldir á ekki að borga. Og ranglátum lögum eða dómum á heldur ekki að hlýða. Það er bara ekki siðlegt að taka þátt í ranglæti.

Afstaðan til IceSave á ekki að mótast af afstöðunni til ríkisstjórnarinnar, og því síður af afstöðunni til stjórnarandstöðunnar, hvað þá ritstjóra Morgunblaðsins. Ég er í sjálfu sér á móti öllum borgaralegum ríkisstjórnum, en á meðan enginn skárri valkostur er í sjónmáli sé ég ekki ástæðu til að fella þessa og sjá svo bara hvað gerist. Það þarf bara að taka málefnin fyrir hvert fyrir sig. Ferill núverandi ríkisstjórnar hefur í aðalatriðum ekki verið glæsilegur og hvert málið rekið annað sem ber að berjast gegn á hæl og hnakka.

Sýnið mér félagslega framsækna stefnu í efnahagsmálum, húsnæðismálum, velferðarmálum o.s.frv. og ég skal styðja hana. Haldið áfram að sýna auðvaldinu auðsveipni, og ég skal leggja steina í götu ykkar.

1 comment: