Monday, December 5, 2011

Passið ykkur nú

Ég vara hér með leiðtoga ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna við því, að bola Jóni Bjarnasyni burt úr embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Ekki vegna þess að hann sé hafinn yfir gagnrýni, heldur vegna þess að það er ekki tilefni til svo afdrifaríkra ráðstafana. Afdrifaríkra segi ég, því það er lýðum ljóst hvað býr í raun að baki og hvað er í húfi: Jón stendur á sínu í einu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar, sem er andstaðan við aðild að Evrópusambandinu, og uppsker (skiljanlega) fyrir vikið smán og fæð samruna-harðlínuafla og tækifærissinna. En staðfesta Jóns í þessari nýju sjálfstæðisbaráttu er ekki eina ástæðan fyrir því að ég styð setu hans á ráðherrastóli. Ætli forysta ríkisstjórnarinnar hafi hugsað afleiðingar þess til enda, ef honum verður vikið burt? Ætli brotthvarf hans sé svo mikilvægt, að það megi leggja hvað sem er að veði? Það er ekki bara eining og heill ríkisstjórnarinnar sem ég hef í huga, heldur líka eining og heill Vinstri-grænna, þar með talið fylgið.

Evrópusambandsmálið hefur verið flokknum þungbært, og fyrir því eru góðar ástæður. Margt það fólk sem kaus VG í þeirri trú (á tryggð forystunnar við stefnuskrána) að þá væri ESB-aðild úr augsýn, telur sig illa svikið og mun ekki láta hafa sig að fífli aftur. Að ógleymdu öllu því ærlega fólki, sem hvatti aðra til að kjósa VG og hét staðfestu flokksins í ESB-málinu en hefur verið gert ómerkt orða sinna. Þeir þingmenn VG sem kusu með ESB-umsókninni unnu málstað þjóðfrelsisins, og um leið trúverðugleika flokksins, mikið tjón. Þeim væri nær að taka sér staðfestu Jóns Bjarnasonar til fyrirmyndar. Sá sem vill ekki að Ísland gangi í ESB, styður ekki umsókn um það.

Hvort sem fólki er annt um líf ríkisstjórnarinnar, sjálfstæði þjóðarinnar eða gæfu VG sem flokks, þá er öruggara að Jón sé áfram ráðherra heldur en að hann sé það ekki.

Vinur er sá er til vamms segir: Passið ykkur nú, og leggið ekki meira undir en þið megið við að tapa.

Þessi grein birtist áður á Smugunni 2. desember síðastliðinn.

No comments:

Post a Comment