Að það sé hægt að skjóta einhvern jafngildir því ekki að það sé rétt að skjóta einhvern. Það gildir bæði um hvítabirni og Ósama bin Laden. Morð er morð. Að því sögðu, þá trúi ég fáu sem kemur frá her eða leyniþjónustu Bandaríkjanna, og veit ekkert hvað gerðist í Abbotabad þarna um daginn. Ég veit hvorki hvort Ósama bin Laden er lifandi eða dauður né hvort hann hefur nokkurn tímann komið til Abbotabad. Og þið hin vitið það ekki heldur. Það eina sem ég veit er að Ósama hóf hryðjuverkaferil sinn sem handbendi Bandaríkjanna, og að flest illvirki sem hafa verið eignuð honum hafa komið sér vel fyrir valdamikla þorpara í Bandaríkjunum.
~~~ ~~~ ~~~
Síðastliðinn fyrsti maí var sá slappasti sem ég hef tekið þátt í. Hann sýndi glögglega fram á þá gjá sem er milli verkalýðsforystunnar og verkalýðsins. Verkalýðsforystunni finnst ástæðulaust að verkalýðurinn taki annan þátt í hreyfingunni heldur en að mæta á 1. maí, og verkalýðurinn vantreystir verkalýðsforystunni, fyrirlítur hana jafnvel, en reynir ekki að breyta henni til hins betra heldur tekur bara ekki þátt. Skínandi dæmi um þetta er nýleg formannskosning í stærsta verkalýðsfélagi landsins.
Þetta er mjög miður. Verkalýðshreyfingin er eitt það dýrmætasta sem við eigum og það á ekki að henda henni í ruslið, heldur standa vörð um hana út á við og taka til í henni inn á við. Skvetta ekki burtu barninu með baðvatninu. Ég skil svo sem vel að það sé púað á ræðumann ASÍ, eins illa og ASÍ hefur staðið sig undanfarnar kynslóðir, en ég get ekki samþykkt að það sé reynt að hleypa upp fundum verkalýðshreyfingarinnar. Hvort sem fólki líkar betur eða verr, þá jafngildir árás á verkalýðshreyfinguna árás á verkalýðinn.
Friday, May 6, 2011
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment