Wednesday, April 27, 2011

„Víðsýni“ eða bara venjuleg tækifærismennska?

Steingrímur J. Sigfússon kallar eftir „víðsýnni“ umræðu um Evrópusambandið og frábiður sér þröngsýni á borð við þjóðrembu, sérgæsku og einangrunarsjónarmið. Nú ætla ég hvorki að taka upp hanskann fyrir þjóðrembu né sérgæsku, né fara að túlka hvað „einangrun“ þýðir – en hann vill heldur ekki að við séum að draga einhverjar ályktanir af útreiðinni sem ESB veitir Írum, Grikkjum og Portúgölum. Hann um það.

Það fer um mig hrollur þegar Steingrímur talar um að „ljúka verkinu“ – þegar „verkið“ er endurreisn auðvaldsins. Það skýtur skökku við, að þykjast gagnrýna „markaðsvæðingar- og stórfyrirtækjahagsmuni Evrópuveldanna“ – þegar maður hefur sjálfur einkavætt bankana upp á nýtt, látið Magma-málið ganga sinn gang og sóað milljörðum í Sjóvá, svo fátt eitt sé nefnt. Það gremst sumum að verkin sækist seint hjá ríkisstjórninni – en í mörgum stórmálunum mættu þau alveg sækjast seinna mín vegna. Aðlögunin að ESB er ágætt dæmi um mál sem má dragast sem mest. Helst niður á hafsbotn.

Í minni heimasveit var það kallað tækifærismennska, að segja eitt og gera annað. Og þegar menn tala í eina átt þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, hegða sér í hina áttina þegar þeir fá völd, og réttlæta allt saman með tali um „raunsæi“ og „ábyrgð“, þá hljómar það ekki eins og raunsæi eða ábyrgð í mínum eyrum, heldur einföld, gamaldags tækifærismennska. Að gefa sig út fyrir að vera andstæðingur ESB-aðildar en (a) greiða atkvæði með umsókn, (b) þykjast ekki vita hvað aðild felur í sér og (c) tala gegn öðrum ESB-andstæðingum – hvað er það annað en tækifærismennska? Ætlast maður sem gaf eftir eitt mikilvægasta vígið í baráttunni gegn ESB-aðild, til þess að sér verði treyst fyrir forystu í úrslitaorrustunni? Þegar Steingrímur kórónar þennan pistil með kokhraustum viðvörunum gegn því að „sundra röðum samherja“ – er þá nema von að maður spyrji, hverjir það eru sem eru samherjar í þessari baráttu?

No comments:

Post a Comment