Thursday, January 20, 2011

Niðurskurður strætó er hneyksli

Ég er hneykslaður á því að menn ætli að sitja fast við sinn keip í því að skera niður strætó. Í strætó er svo gott sem ekkert eftir til að skera niður, annað en sjálf þjónustan. Nokkrir tugir milljóna munu sparast á rekstri strætó með því að hætta að aka klukkutíma fyrr á kvöldin, byrja tveim tímum seinna á laugardögum og hætta að keyra leiðir 2 og 5 um kvöld og helgar. Nokkrir tugir milljóna. Á sama tíma munu flestir vinnustaðir vaktavinnufólks þurfa að borga leigubíla þegar strætó gengur ekki. Útgjaldaaukning Landspítalans eins verður þannig margfalt meiri en sparnaðurinn hjá strætó.

Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það er eins og menn fatti ekki að það er trikk við strætó, eins og reyndar sitthvað annað í grunnþjónustu samfélagsins. Trikkið við strætó er þetta: Það kostar peninga að reka hann, en það sparar ennþá meiri peninga annars staðar.

Rúv segir borgarstjórnarmeirihlutann hafa bókað að "að hagræðingarkrafa til Strætó sé ekki meiri en í annarri viðkvæmri þjónustu, s.s. leikskólum og grunnskólum." Fyrir utan að það er ekki hagræðing heldur þjónustuskerðing sem um ræðir, þá segir þessi lína mér að það ætti þá líka að þyrma annarri viðkvæmri þjónustu.

Við skulum ekki gleyma því, að á sama tíma og borgin er að skerða grunnþjónustu, þá á hún tekjustofna sem hún nýtir ekki til fulls. Það er ábyrgðarhlutur.

No comments:

Post a Comment