Monday, February 28, 2005

Charles Featherstone skrifar um markaðslausnir á Peak Oil. Dæmigerður málflutningur manns sem trúir því að markaðslögmál geti leyst jarðfræðileg vandamál. Ódýr olía er af skornum skammti, þess er ekki langt að bíða að hún verði á þrotum. Olíuþurrð blasir við okkur. Afkastageta nútíma iðnaðar byggir næstum því eingöngu á olíu, og þar með sjálft efnahagskerfið. Eina leiðin til að draga úr skellinum er að minnka eftirspurn eftir olíu eins mikið og mögulegt er, eins hratt og mögulegt er. Þegar olía er orðin of dýr fyrir almenning, þá kann að vera of seint að bregðast við. Eftir því sem eftirspurnin eykst hækkar bara verðið. Framboðið mun ekki aukast mikið úr þessu.
Það getur verið að við séum komin yfir þröskuldinn nú þegar. Það getur verið að Ghawar, stærsta olíulindin í Sádi-Arabíu, hafi verið í hámarki svo snemma sem vorið 2003. Eftirspurnin eykst, framboðið ekki. Í fyllingu tímans þverr framboðið. 5 ár? 15 ár? Varla meira en það. Gætu verið 2 ár þess vegna. Vegna þess hvað efnahagskerfi heimsins er gírað inn á fullkomlega hugsunarlaust bruðl með olíu, þá er mannkynið ánetjað henni. Ekki eins og heróíni. Frekar eins og vatni. Eða mat. Olíuknúnar vélar gera okkur kleift að framfleyta meira en 6 milljörðum manna. Ef þeirra nyti ekki við væri það hægara sagt en gert.
Mannkynið mun laga sig að breyttum aðstæðum. Ef aðstæðurnar breytast á þann veg að fæðuframboð minnkar mjög mikið og mjög hratt, þá lagar mannkynið sig að breytingunni með því að fækka munnunum sem þarf að metta. Mjög mikið. Mjög hratt.
Sú aðgerð, að gíra efnahagskerfi heimsins inn á afköst án olíu, er ekkert sem menn gera á seinustu stundu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ef allt gengur á besta hátt er það samt margra ára verk að breyta þessu. Það er enginn hægðarleikur að stíga á hemlana í þessari eimreið. Lesið Life After the Oil Crash. Þið sjáið ekki eftir því.

No comments:

Post a Comment