Tuesday, February 8, 2005

Vettvangsferð Hins íslenska tröllavinafélags





Fyrsta vettvangsferð/þorrablót starfsársins verður laugardaginn 12. febrúar. Áfangastaðurinn er Tröllafoss í Mosfellssveit og ferðatilhögun verður sem hér segir:

Tekinn verður strætó upp að Laxnesi. Leið 25 gengur þangað og fer frá Ártúni. Hann gengur 5 sinnum á dag, við tökum vagninn sem fer frá Ártúni 11:56 og verðum þá komin að Laxnesi klukkan 12:23.

Fólk er hvatt til að mæta tímanlega í Ártún til að missa örugglega ekki af þessum vagni!

Þeir sem vilja koma sér sjálfir í Laxnes mega það að sjálfsögðu!

Í Laxnesi söfnum við liðinu og leggjum í hann um 12:30. Við göngum sem leið liggur, nokkurra kílómetra leið, norður að Tröllafossi, sem er í Haukafjöllum norðanmegin í Mosfellsdalnum. Þegar þangað kemur svipumst við um eftir tröllum og étum súrmat og annað nesti áður en við göngum til baka að Laxnesi, þaðan sem við tökum strætó í bæinn sem fer frá Laxnesi 18:23.

Þar sem þetta er 6 klukkutíma ganga, þá er rík ástæða til að klæða sig vel. Hið íslenska tröllavinafélag vill ekki að félagar þess verði úti! Hlý föt, góðir skór, þurrir sokkar. Nesti. Annað sem fólki finnst ómissandi í útivist. Það er ekki skemmtilegt að vera svangur og kaldur í 6 tíma!

Fararstjórar eru Davíð Arnar Runólfsson og Vésteinn Valgarðsson. Verð er 600 krónur fyrir borgandi meðlimi, 800 fyrir aðra. Innifalinn í verði er súrmatur, og einhver lögur til að skola honum niður. Ath. fargjald með strætisvagni (220 kr.) er ekki innifalið. Hægt verður að borga félagsgjald á staðnum (1500 kr.) og jafnvel ganga í félagið, þeir sem það vilja. Tekið skal fram að þeir sem ekki eru skráðir félagsmenn eru velkomnir með líka. (Einnig skal tekið fram að vel getur verið að semja megi við gjaldkera ef fólk hefur séróskir um greiðslu...)

Þeir sem ætla með í ferðina eru beðnir að tilkynna þátttöku sína eigi síðar en á hádegi á föstudag, 11. febrúar, í netfang félagsins: trollavinafelag@gmail.com. (Það er til þess að það verði örugglega til nægur súrmatur!)



Fjölmennum nú í þessa skemmtilegu ferð!

No comments:

Post a Comment