Saturday, February 26, 2005

Mér finnst utanríkisráðherra vera eins og rati og sjálfum sér líkur þegar hann efnir til ráðstefnu um þau "tækifæri" sem Íslendingum gefast þegar loftslag á jörðinni fer hlýnandi. Að sjá þennan mann halda sínu striki, neitandi að viðurkenna bersjáanlega hættu þótt hún sé skorin út í pappa fyrir hann, finnst mér ekki vera til marks um stefnufestu heldur tregðu, þrjósku og hroka.
Í sjálfu sér má vel segja að það opnist einskonar tækifæri fyrir Íslendinga þegar hafís minnkar og norðaustur-leiðin verður betur skipafær. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hlýnandi loftslag á jörðinni, mengun og öfgafyllra veðurfar eru meðal áþreifanlegra vandamála sem við höfum býsna vel rökstuddan grun um að séu að verulegu leyti af manna völdum. Við vitum að þetta er byrjað. Hitinn fer hækkandi, og við vitum ekki hversu mikið hann hækkar né hvernig þetta fer. Ef maður krukkar í úrverk án þess að hafa vit á því má maður teljast heppinn ef það gengur áfram. Sama má segja um vistkerfi jarðarinnar. Við erum að krukka í það og það er enginn "stopp"-takki. Það er óhugnanlegt að sjá hvernig Davíð Oddsson virðist ekki vilja átta sig á þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Saraya Iraqna heita nýstofnuð vígasamtök í Írak. Þau samtök eru ólík öðrum vopnuðum hópum að því leytinu til að þau styðja hernámið. Í síðasta mánuði spurðist út að Pentagon væri að íhuga að heimfæra upp á Írak dauðasveitir af sama tagi og Bandaríkjastjórn hefur starfrækt í Mið- og Suður-Ameríku. Ekki leið á löngu þar til Saraya Iraqna skaut upp kollinum og byrjaði að setja fé (bandaríska dollara) til höfuðs uppreisnarmönnum. Allt að 50.000 dollarar fyrir höfuðleðrið, var sagt í íraska dagblaðinu Al Ittihad. Haft var eftir þeim að þeir ætluðu sér ekki að vera vandfýsnir. Gefa bara út skotleyfi á alla sem eru álitnir óvinir.

No comments:

Post a Comment