Sunday, February 13, 2005

19. mars eru stór mótmæli gegn Íraksstríðinu. Hvað varðar hversdagsmótmælin í Lækjargötu og á Austurvelli, þá held ég að það muni ekki fara mikið fyrir mér í þeim. Ég er orðinn hundleiður á mótmælum. Þótt maður fái góða samvisku af að standa á Lækjartorgi í klukkutíma, spjalla, veifa skilti og fá kvef, þá er því miður lítið upp úr því að hafa. Spjallið getur eins vel farið fram á kaffihúsi. Hans hávelborinheit geta eins vel tekið við mótmælum í umslagi. Já, mótmæli eru ansi vinsæl en bera ekki árangur að sama skapi. Orku manns og tíma er betur varið í annað, er ég hræddur um.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í dag er hugvekja eftir mig á Vantrú. Mamma þín er komin af öpum nefnist sú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Styrmir Gunnarsson segir í leiðara Morgunblaðsins í gær, 12. febrúar:
Það er tímabært að alvöru umræður hefjist hér um utanríkisstefnu Íslands á 21. öldinni. Sá skotgrafahernaður, sem stjórnarandstaðan og sumir fjölmiðlar hafa haldið uppi gegn Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra, undanfarnar vikur vegna Íraksstríðsins skiptir engu máli og þjónar engum tilgangi.
Þá vitum við það, Styrmi Gunnarssyni finnst það ekki þjóna neinum tilgangi að menn séu ábyrgir gjörða sinna eða sannsöglir um embættisfærslu sína. Á sömu miðopnu ritar Steingrímur J. Sigfússon góða grein um sama mál.
Ríkisstjórnin og þeir sem halda uppi vörnum fyrir hana vilja ekki að þetta mál sé rætt. Það er skiljanlegt, þar sem skammarlisti þeirra er langur og fjölbreyttur. Halldór og Davíð vilja ekki bera ábyrgð á gjörðum sínum og það vilja stuðningsmenn þeirra ekki heldur að þeir geri eða séu látnir gera.
Þegar fylgismenn árásarstríðsins gegn Írak tala um að andstæðingar þess eigi að hætta að "velta sér upp úr fortíðinni og snúa sér að uppbyggingu í Írak" eru þeir einfaldlega eins og krakkar sem bregðast hinir verstu við þegar er komið að þeim með hendina ofan í kökukrúsinni: "ég má þetta alveg" "hættessu".. Ef ég dræpi mann, hversu góð málsvörn væri það þá fyrir rétti, að segja yfirvöldum að láta mig í friði og einbeita sér frekar að því að hugga ekkjuna?

No comments:

Post a Comment