Thursday, February 10, 2005

Doddi bendir á, og ég tek undir, að Bush og Bliar eru rúnir trausti og trúverðugleika. Traust og trúverðugleiki eru eins og heiður og virðing; það er fljótgert að brjóta niður en tekur ærinn tíma og fyrirhöfn að byggja upp. Nú virðast þeir vera að hvetja kutana í stríð gegn Íran. Ef þeir vilja fara í stríð við Íran, þá gera þeir það bara. Þeir hafa herjum og gereyðingarvopnum á að skipa og Bush getur ekki boðið sig fram til endurkjörs aftur. Ég efast um að Bliar muni þrauka yfir næstu kosningar heldur. Það stöðvar samt náttúrlega ekki stríðsherra með einbeittan brotavilja. Það verða engar þjóðaratkvæðagreiðslur um stríð gegn Íran. Það verður ákveðið á tveggja manna tali. Lifi lýðræðið. Látum frelsinu rigna yfir þessa skítugu handklæðahausa.



Halldór Ásgrímsson stynur því upp að Bandaríkjamenn hafi sett "mikinn þrýsting" á Íslendinga og hótað að taka burt elsku þoturnar ef Ísland styddi ekki stríðið. Þetta grunaði nú flesta, en færri sem sögðu það upphátt. Það kemur hins vegar á óvart að Halldór skuli þora að viðurkenna það. Kannski að Steingrímur Hermannsson hafi tekið hann á eintal? Hugsa sér. Sendiherra Bandaríkjanna hringir í Davíð og segir til hvers er ætlast af honum. Ekki ræða þetta við utanríkismálanefnd, það flækir bara málið. Þrjóskist við og étið frasana upp eftir okkur. Þetta reddast allt. Þoturnar fara samt, þegar stríðið er búið. Ég mundi kenna í brjósti um Halldór ef þetta væri ekki sjálfsskaparvíti hjá honum.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson og þingmannalið þeirra standa eins og asnar. Eins og krakki sem er gripinn með lúkuna í kökukrúsinni. Vita upp á sig skömmina, allir vita hvernig í pottinn er búið og þeir sjálfir ekki síst. Á þessum tímapunkti mundi maður með snefil af sjálfsvirðingu segja af sér. Ef maður með snefil af sjálfsvirðingu hefði nokkurn tímann komist í þessa aðstöðu.

Á Mbl.is er ágæt samantekt um umræðurnar í þinginu í dag, þar sem stjórnarmenn virðast hafa þau svör helst, að stjórnarandstaðan eigi að láta þá í friði og hætta að velta sér upp úr aðild þeirra að árásarstríði og tilheyrandi brotum á alþjóðalögum og mannréttindum. Þetta vakti athygli mína:
Vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar um stefnubreytingu, þá sagði Halldór að það lægi alveg ljóst fyrir, varðandi árásir vestrænna herja á Kosovo-hérað í Júgóslavíu, að öryggisráð SÞ hafi ekki samþykkt þær. Sagðist Halldór ekki muna betur en að Samfylkingin hafi stutt á sínum tíma þegar íslensk stjórnvöld veittu þeim aðgerðum stuðning.
Athyglisvert að Halldór skuli vilja rifja upp þátt sinn í Júgóslavíustríðinu, þar sem hann og Davíð studdu m.a. þá ákvörðun Nató, að fréttastofa serbneska sjónvarpsins væri löglegt skotmark, sem aftur skilaði sér í morðum á júgóslavneskum fréttamönnum. Ef ég væri Halldór mundi ég frekar reyna að gleyma Júgóslavíustríðinu.

Davíð skýrir frá framlagi Íslendinga til vopnaflutninga til Íraks. Þarna er ein hernaðaraðgerðin sem Íslendingar taka þátt í.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Norður-Kóreumenn segjast eiga kjarnorkuvopn. Kemur ekki á óvart. Ef þetta væri eltingaleikur, þá væru Norður-Kóreumenn núna komnir í "stikk" -- það böggar nefnilega enginn mann sem á kjarnorkusprengjur. Norður-Kórea er svosem fyrir löngu búin að koma sér upp nægum herafla og vopnum til að fæla frá sér hvaða árásaraðila sem er, en þetta er kirsuberið á rjómatertuna.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Og talandi um kjarnorkusprengjur, þá er nú gott að hugsa til þess að við Evrópumenn höfum okkar skerf tilbúinn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Fór í dag og mótmælti í hádeginu hjá Stjórnarráðinu. Þar verða aftur mótmæli í hádeginu á morgun. Fólk er velkomið, við bítum ekki. Ekki einu sinni þá sem eiga skilið að vera bitnir...

~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Fór annars líka í gærkvöldi á bíó í boði SUS. Fahrenhype 9/11 var myndin. Ég fór eftir á að giska hálftíma. Það getur hugsast að ég eigi eftir að gera aðra tilraun til að sjá þessa mynd, en hún var ekki bara léleg, heldur leiðinleg líka. Ann Coulter og David Frum að segja hvað þeim þætti Bill Clinton vera mikill bjáni. Og Michael Moore vitlaus. Og George Bush frábær. Ég skil ekki hvað ungir sjálfstæðismenn telja sig vera að gera með því að skipa sér í lið með öfgakristnum, herskáum neo-conservative repúblíkanadelum. Ef þeir halda að þetta sé sterkur leikur, pólitískt séð, þá lýsi ég því hér með yfir að ég held að það sé ekki svo. Ef þeim gengur hreinskilnin ein til, að þeir séu að draga línurnar og þeir séu í þessum félagsskap og skammist sín ekki fyrir það, þá tek ég ofan fyrir þeim.

No comments:

Post a Comment