Thursday, February 17, 2005

Rafiq Hariri var myrtur og hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum að nú "berist böndin að Sýrlendingum". Segir hver? Meðan þeir segja þetta með annarri tungunni segir hin að það sé "óljóst" hver hafi framið morðið.
Getur hvort tveggja verið rétt? Er þversögn að segja að "það sé óljóst hver framdi morðið, en böndin berist að Sýrlendingum"? Ég er sannast sagna ekki viss. Allavega þykist ég kenna þekkta tilhneigingu til að gefa hlutina í skyn í staðinn fyrir að segja þá fullum fetum. Ef þeir eru sagðir fullum fetum og síðan sannast hið gagnstæða, þá er auðveldara að húkka menn fyrir óvandaðan málflutning.
Í gær bloggaði ég um þetta sama morð og vísaði þá - og vísa hér með aftur - í þessa ágætu grein um pólitískar hliðar á því. Í dag birtist önnur ágæt grein sama efnis. Ég er mjög efins um að Sýrlendingar hafi gert þetta. Nautaskítslyktin af málflutningnum er of sterk.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Efnavopna-Alí verður flengdur. Skemmtilegt að láta þetta viðurnefni festast svona við hann. Við þurfum að finna góð viðurnefni á vestræna stjórnmálamenn, Efnavopna-Halldór og félaga. Bandaríkjaforseti gæti verið Guantanamo-Georg eða Abu Ghreog. Halldór Ásgrímsson ... hmm ... Halldór herskái? Það þarf að leggjast yfir þetta.
~~~ ~~~
Stormsveit stórlandeigenda í Para í Brasilíu myrðir forkólfa í verkalýðsbaráttunni. Á ykkur sem hafið ekki séð The Burning Seasons með Raul Julia skora ég að sjá hana. Í Suður-Ameríku er ólga í stéttabaráttunni. Á Íslandi láta menn eins og stéttabaráttan sé áróðursbragð úr kalda stríðinu og verkalýðsforystan spilar bridds við auðvaldið.
~~~ ~~~
Talandi um auðvald, þá skrifar Ögmundur Jónasson beinskeytta grein í Morgunblaðið í dag, miðopnu. Þar kallar hann þá menn, réttilega, aunokunarauðvald, sem eru að rísa upp hér á Íslandi. Einokunarauðvald er þetta, einokunarauðvald skal það heita.
~~~ ~~~
Hér er ágæt grein um það hvernig sömu Repúblíkanarnir og ærðust yfir einkalífi Bill Clinton og einhverju fjármálahneyksli, berjast nú á hæl og hnakka fyrir Bush, sem hefur ekki bara kostað bandarísku þjóðina hundruð milljarða dollara og orðstírinn í þokkabót, heldur einnig logið blákalt aftur og aftur. Fjölmiðlarnir taka gagnrýnislítinn þátt í skrípaleiknum. Hvert stefnir þetta eiginlega?

No comments:

Post a Comment