Monday, February 14, 2005

Palestína, N-Kórea, Nepal, um stjórnarandstöðu og Zimbabwe


Palestína


From now on, I have a partner, segir Abbas um Sharon. Mér finnst það hljóma eins og Abbas sé í vondum félagsskap. Ég sé ekki fyrir mér að Sharon sé maðurinn sem stillir til friðar. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég efast um að Abbas sé sá heldur. Þótt það sé kannskí út úr karakter af minni hálfu, þá held ég að ég geri orð spámannsins Jesaja að mínum: Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. (Jesaja 32:17) Jesaja gamli hittir þarna naglann á höfuðið: Friður er ávöxtur réttlætis. Án réttlætis er tómt mál að tala um frið.
Á orðum Sharons er ekki mark takandi. Hvað gerir hann? Mun hann hefja niðurrif aðskilnaðarmúrsins? Mun hann hefja brottflutning landtökumanna? Mun hann hætta við að innlima meira en helming Vesturbakkans inn í Ísrael? Mun hann hleypa flóttamönnunum heim? Augabrúnirnar á mér munu lyftast þann dag sem einhverri þessara spurninga verður hægt að svara játandi. Þangað til er ég tortrygginn.

N-Kórea


Suður-Kórverjar segjast efast um að Norður-Kórverjar eigi kjarnorkuvopn. Ég held að Kim Jong-il og félagar séu búnir að vinna þessa skák. Hvað sem um þá má segja að öðru leyti, þá virðist leikfléttan hafa gengið upp. Norður-Kórea komst fyrir löngu í hóp óárennilegustu ríkja að ráðast á, en það kæmi vægast sagt á óvart ef það yrði ráðist á hana úr þessu. Ég held að hallarbylting í Pyongyang sé sterkasti leikurinn fyrir óvini Norður-Kóreustjórnar.

Nepal


Valdaráni konungsins um daginn svöruðu maóistar með því að lýsa allsherjarbanni á ferðir og flutninga í landinu. Það hefur gengið nokkurn veginn eftir.* Sumir fylgja því af stuðningi við maóista, aðrir af ótta við hefnd þeirra.

Lagt fram frumvarp um "frelsun" Írans.

Um stjórnarandstöðu og Zimbabwe


Það er mikill misskilningur að þar sem ríkisstjórn er afturhaldssöm hljóti stjórnarandstaðan að vera framsækin. Algengara er að ríkisstjórn sé afturhaldssöm og stjórnarandstaðan sé það líka. Satt best að segja held ég að sú regla hafi ekki margar undantekningar, að minnsta kosti ekki um þessar mundir. Í löndum á borð við Júgóslavíu og Georgíu, og nú síðast Úkraínu, höfum við horft upp á valdaskipti sem vestrænir fjölmiðlar hafa kallað byltingar en eiga í raun lítið skylt við byltingar. Í öllu falli hafa nýju valdhafarnir ekki verið neitt betri en þeir gömlu; eini munurinn sá að þeir eru hallari undir vestræna hagsmuni en þeir gömlu.
Nú í mars standa fyrir dyrum kosningar í Zimbabwe. ZANU-PF, hreyfingu Mugabe forseta, er spáð stórsigri með kosningasvindli. Sterkasta hreyfingin í stjórnarandstöðunni er Movement for Democratic Change. Mugabe er vondur svo þeir hljóta að vera góðir, ekki satt? Ég leyfi mér að efast. Meðan Mugabe hefur ótvírætt gert margt sem hann hefði betur sleppt, þá eru MDC hreint engir englar heldur. Suður-Afríkumenn eiga mikla hagsmuni í hreyfingunni, svo og ýmis lönd breska samveldisins. Með þeim í liði er sjálfur Ian Smith. Þess má geta að í gamla daga, þegar Mugabe kallaði sig marxista, þá var það ZANU, sem þá barðist gegn apartheid-stjórn Ians Smith, sem var framsækna stjórnmálaaflið. Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Smith tapaði fyrir Mugabi 1980, Rhódesíu var breytt í Zimbabwe, og Mugabe fór að hlaða undir sjálfan sig og fylgismenn sína. Sjálfur hallast ég að því að Chimurenga III, landa-uppskiptaáætlun Mugabes, þar sem land hefur veriðt ekið af hvítum búgarðaeigendum og fengið fátækum svörtum bændum, sé kannski ekki alveg eins slæmt og látið er hljóma í vestrænum fjölmiðlum.

No comments:

Post a Comment