Thursday, February 3, 2005

Fyrir nokkru lýsti ég ánægju minni með framkvæmdirnar í Suðurgötu. Ánægju með að gangstéttin skyldi breikkuð um hálfan metra, gangbrautum fjölgað o.s.frv. Ég hef einu að bæta við þann lista, sem er þetta: Þar sem til skamms tíma var gangstétt í norður frá Suðurgötu 29 og endaði í engu fyrir ofan Ráðherrabústaðinn, þar er ekki lengur gangstétt heldur komin beð sem mér sýndist hafa verið plantað víði í. Það er gott.



Nú er komið að því sem ég er óánægður með:

1. Á horni Skothússvegar og Suðurgötu er niðurfall fyrir rigningarvatn. Frá því er aflíðandi vegarkanturinn í norður, svo að fyrir norðan niðurfallið kemur allstór pollur. Þetta er afkáraleg mistök sem auðvelt hefði verið að sneiða hjá.

2. Nýja beðið, sem ég áður gat um, austan götunnar og norður frá Suðurgötu 29, er óvarið. Einhver snillingur hefur keyrt ofan í það svo djúpt hjólfar eftir jeppa sker nú beðið og hefur kramið a.m.k. 1 eða 2 víðisprota. Ef ætlunin er að hafa þarna beð, þá þarf að búa þannig um að menn séu ekki spólandi í því.

3. Gangstéttin er gljúp og sumsstaðar sígur regnvatn milli hellna, étur burt sand undan þeim svo svoglar í þegar á þær er stigið í rigningu. Ég á nú von á að þetta verði lagað, og að stéttin þéttist eftir því sem sandurinn trampast ofan í hana.

4. Nyrðra hornið á Suðurgötu og Kirkjugarðsstíg er ennþá slysagildra. Þegar maður fer niður Kirkjugarðsstíg í hálku og kemur á þetta horn er hallinn þannig að hornið er ekki "með manni í liði" ef svo má segja: Það hallar út á götuna á sjálfu bláhorninu svo ef maður gengur niður og beygir þarna til vinstri á hálku er auðvelt að renna á raskatið út á götu og steindrepast. Þarna mætti vera handrið, í líkingu við handriðin þar sem Spítalastígur kemur niður á Þingholtsstræti.

5. Það hefði verið meinalaust af minni hálfu, hefðu hraðahindranir verið fleiri. Suðurgata er ekki bara tengibraut, hún er líka húsagata. Þarna búa börn og veruleg umferð gangandi vegfarenda, fullorðinna og barnungra, og umferðin bæði hröð, hávær og mengandi.




...og hananú!

No comments:

Post a Comment