Friday, February 18, 2005

Ísraelar fyrirhuga að treysta tök sín á landtökusvæðum á Vesturbakkanum á næstunni. Ef þeir gera alvöru úr því að draga landtökumenn út af Gazasvæðinu verður því fagnað sem stórsigri á Vesturlöndum en reynt að breiða yfir að á sama tíma er landránið háð sem fyrr á Vesturbakkanum, þar sem a.m.k. 55% landsins verða innlimuð í Ísrael. Reyndar held ég að Sharoni muni leggjast eitthvað til, til að blása af eftirgjöf Gazasvæðisins. Ef málið er skoðað í samhengi megum við ekki einskorða okkur við Gazasvæðið. Það skiptir máli að sjá hvað Ísraelar eru að gera með hinni hendinni. Það sem er á dagskrá er ekki að landtökubyggðirnar verði lagðar niður, heldur skipulegt undanhald á einni vígstöð til þess að treysta til muna stöðuna á hinum vígstöðvunum.


Rússar staðfesta að þeir ætli að selja Sýrlendingum nýtt, skammdrægt eldflaugavarnakerfi. Ekki er langt síðan Ísraelar kynntu til sögunnar nýjan Markava-skriðdreka, fjórðu kynslóð, sérstaklega útbúinn til átaka í þéttbýli. Munu Ísraelar og Sýrlendingar lenda í stríði innan skamms? Ég veit það ekki, en hvorir tveggju búa sig af kappi undir þann möguleika og að Rafiq Hariri drepnum má segja að óveðursskýin hrannist upp.

Núna á laugardaginn hefst heimildamyndavika Gagnauga.is, og stendur hún til 27. febrúar. Að þessu sinni sýnum við 47 heimildarmyndir um alþjóðamál, trúarbrögð, grín og ýmiss konar fræðsluefni. Sýningarnar fara fram í húsakynnum Snarrótar að Garðastræti 2, 101 Reykjavík. Aðgangseyrir er 300 krónur fyrir hverja mynd, en passi sem gildir á allar myndirnar kostar 1.500 krónur. Dagskrá heimildarmyndavikunnar og umfjöllun um myndirnar er að finna á Gagnauga.is.

No comments:

Post a Comment