Monday, November 28, 2005

Ríkisóstjórnin veðjar á ógæfuna: Okkar verkefni

Ríkisstjórn Íslands hefur lagt mikið að veði í ógæfulegum verkefnum. Svo mikið að henni er ókleift að hætta við núna, að minnsta kosti þegar annars vegar eru Kárahnjúkavirkjun eða glæpir gegn mannkyni í Írak. Það skiptir engu máli þótt 80% eða 90% landsmanna vilji að Ísland hætti stuðningi við Íraksstríðið og það án tafar. Það skiptir heldur ekki máli þótt andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi margoft sýnt fram á það að Kárahnjúkavirkjun sé arfavitlaus og ömurleg. Rökhyggja, sannleiksást eða lýðræðislegur almannavilji skipta ekki máli.

Það sem skiptir öllu máli eru hagsmunir og völd. Íslenska ríkisstjórnin hefur bundið trúss sitt við Bandaríkjastjórn í Írak og við áltröll í Kárahnjúkavirkjun, við IMF, WTO og WB í efnahagsmálum, við siðblinda auðhringa í sjávarútvegsmálum og svo framvegis, almennt fléttað hagsmunum sínum saman við hagsmuni auðjötna, prívathagsmuna og valds. Með þessum hagsmunum stendur hún og með þeim mun hún falla.

Íslenska ríkisstjórnin hefur ekki pólitískt efni áhætta við stuðning við stríðsglæpi í Írak, hætta við Kárahnjúkavirkjun, afturkalla dölu ríkisbankanna eða afnema kvótakerfið. Slíkur leikur yrði henni pólitískur banabiti. Á því leikur enginn vafi. Þannig að við getum sagt okkur það sjálf að það stoðar lítið – nei, það stoðar ekkert – að senda bænaskrár til ríkisstjórnarinnar um að hverfa af stefnu sem hún hefur lagt svona mikið að veði í. Ekki neitt. Bænaskrá til ríkisstjórnarinnar um að hætt verði við Kárahnjúkavirkjun getur eins vel heima setið og af stað farið, því hún er bænaskrá um pólitískt sjálfsmorð.

Ríkisvaldið er framkvæmdanefnd ríkjandi stéttar, auðvaldsins. Auðvaldið vill að Kárahnjúkavirkjun verði byggð, að erlendri fjárfestingu sé hleypt inn í landið, að kvótinn sé í einkaeign, að íslenska ríkið styggi ekki Bandaríkjastjórn heldur styðji Íraksstríðið. Stundarhagsmunir auðvaldsins er að Ísland sé selt hæstbjóðanda og íbúarnir með. Ríkisstjórnin sér um að framkvæma og útfæra þetta. Ríkisstjórnin og auðvaldið eru sitthvort ljónið í veginum fyrir því að rökhyggja, lýðræði og húmanismi („mjúk gildi“?) geti ríkt í stefnumótun hér á landi.

Eins og bænaskrá er gagnslaus, þá eru og mótmæli gagnslaus. Hvort sem 50 herstöðvarandstæðingar með sultardropa standa fyrir framan bandaríska sendiráðið eða 50 umhverfisverndarsinnar tjalda á Kárahnjúkum, hvort sem lesin eru ljóð á Austurvelli eða slett skyri á Hótel Nordica. Bænir og rök hrökkva skammt ef sá sem þeim er beint til hefur enga ástæðu til að fara eftir þeim. Ef hagsmunir ALCOA ganga gegn rökréttum bestu hagsmunum Íslendinga, af hverju ætti ALCOA þá ekki að vera sama?

Nei, það dugir ekki að biðja bænir. Fólk þarf að krefjast réttar síns og fylgja kröfum sínum eftir. Það er sama hvað maður hefur stórt gjallarhorn til að öskra kröfur sínar, ef maður hefur ekki burði til að fylgja þeim eftir. Ef á að hætta við Kárahnjúkavirkjun eða stuðning við glæpi gegn mannkyni, og ríkisstjórnin stendur í vegi fyrir því, þá verður augljóslega losna við þessa ríkisstjórn. Með góðu eða illu. „Ha, illu?“ heyri ég ykkur spyrja forviða, „á bara að skjóta alla, ha?“ – nei, en hvaða ríkisstjórn lætur bola sér burt án þess að mótmæla? Þegar ég tala um að koma ríkisstjórninni frá með illu er ég auðvitað að tala um að gera það pólitískt. Kippa undan henni stoðunum svo hún falli. Í pólitískri aftöku er ekki notuð alvöru öxi.

Ég mundi alveg styðja vopnað valdarán ef ég tryði að það virkaði eða hefði eitthvað gott í för með sér til lengri eða skemmri tíma litið. Það gerir það bara ekki. Fyrir utan áhættuna fyrir málstaðinn og fyrir utan að vera stofna saklausu fólki í hættu væri það annað hvort gagnslaust eða gagnslítið, og ósennilega fórnanna virði sem það mundi kosta. En okkur vantar ekki valdarán; okkur vantar byltingu. Óvirk eða friðsamleg mótmæli eru hunsuð (látið mig þekkja það) en virk eða ófriðsamleg mótmæli barin niður (og málstaðurinn öðlast bara fleiri píslarvotta). Vopnin sem hún verður háð með eru ekki byssur og sprengjur heldur traktorar, vörubílar, togarar, frystihús, mjólkursamlög, skólar, vegir. Vígvöllurinn verður efnahagskerfið, skotmarkið auðvaldið – höndin sem heldur um þá kylfu sem ríkisvaldið er.

Gæti allsherjarverkfall knúið fram breytingar? Mundi það neyða ríkisstjórnina til að hætta stuðningi við Íraksstríðið? Ef til vill. Mundi það neyða hana til að gefa heimsvaldastefnu upp á bátinn? Nei. Þótt náttúran sé lamin með lurk leitar hún út um síðir. Verkföll eru árangursrík taktík, er alltaf þeim takmörkunum háð að vera bara taktík. Sem taktík í pólitískri strategíu gætu þau hins vegar komið að miklu gagni, í pólitísku samhengi við stærri stefnu og aðra taktík, við uppbyggingu annars hagkerfis, við fræðslu, við að skipta núverandi ríkisóstjórn út fyrir betri ríkisstjórn. Með öðrum orðum, það þarf pólitíska strategíu og taktík með þróttmikilli og vel skipulagðri framkvæmd til að ganga milli bols og höfuðs á ríkisstjórninni og auðvaldinu.

Á skal að ósi stemma. Skyrslettur, vinnuvélahlekkir eða útifundir koma ekki að tilætluðu gagni. Ríkisvaldið eykur bara við valdbeitingartæki sín eins og þörf krefur - og sendir okkur reikninginn, skattborgurunum. Almenningur kærir sig kollóttan, finnst friðarsinnar og umhverfisverndarsinnar hlægilegir, hallærislegir eða jafnvel varhugaverðir. Árangurinn er enginn, allt unnið fyrir gýg. Árangursríkt starf verður að vera vel skipulagt. Eftir hverju erum við að bíða?

No comments:

Post a Comment