Thursday, November 10, 2005

Hvers má vænta af uppreisninni í París + fleira

Kommadistró Íslands verður í TÞM í dag. Sjá blogg KDÍ.
=== === === ===
Ísrael: Peretz fellir Peres“ held ég að sé frétt dagsins. Þetta á að vera mjög góð frétt fyrir friðarsinna. Uri Avnery gerði nýlega grein fyrir ástæðum þess, lesið „Peretz is Not Peres“ -- hafandi lesið greinina fyrst, þá greip ég andann á lofti við að sjá fréttina.
=== === === ===

Af Frökkum


Ég er ekki hættur að hugsa um unga lágstéttarfólkið á götuvígjunum í París. Egill Helgason skrifar líka um ástandið þar, og vitnar meðal annars í Gérard Lemarquis, sem „sneri vangaveltunum um aðlögunarvanda innflytjenda í Frakklandi á haus; sagði að óeirðirnar undanfarna daga væru einmitt dæmi um að þeir hefðu aðlagast vel. Svona hefðu Frakkar alltaf hegðað sér – byltingar, uppþot og læti hefðu alltaf verið góð og gild aðferð þar í landi.“ Orð að sönnu.

Hér á eftir fara skýringar sem eru að miklu leyti byggðar á skýringum vinar míns í París.



Uppreisnin sem er í gangi núna er sjálfsprottin og fólkið sem gerir hana skipuleggur hana sjálft í mörgum smáum hópum, sem aftur tengjast hver öðrum í gegn um farsíma, internet o.s.frv. -- þetta er að öllum líkindum til merkis um styrkleika uppreisnarinnar. Annars vegar mundi uppreisn skipulögð ofan frá ekki hegða sér svona; hún væri að öllum líkindum miðstýrðari, meðan uppreisn sprettur ekki fram sjálf eins og þessi gerir nema virkilegur hiti sé í mönnum. (Auk þess mundi samsæri af þessari stærðargráðu líklega spyrjast út og verða fyrirbyggt af valdstjórninni.) Hins vegar er ekki hægt að afhöfða höfuðlausan her, og í uppreisn sem hefur ekkert leiðtogasæti er síður pláss fyrir valdagíruga, tækifærissinnaða stéttsvikara.

Þótt mönnum sé heitt í hamsi og hvítni hnúarnir, þá er það samt ekki nóg. Úthverfafátæklingarnir eru frekar einangraðir og hafa litla pólitíska reynslu. Uppreisnarölduna mun væntanlega lægja og ríkisvaldið ná tökum á nýjan leik. Miðstéttirnar, sem núna eru uggandi, álíta þetta kynþáttaóeirðir og munu styðja tilraunir yfirstéttarinnar til að herða og styrkja valdstjórnina til muna -- fasískar ráðstafanir. Reyndar mun strax vera farið að mynda eins konar heimavarnarlið víða meðal miðstéttarinnar, ef ske kynni að á þyrfti að halda.

Það sem þessi alda gæti gert -- og er reyndar líkleg til að gera -- er að hraðsjóða sterka og skýra pólitíska vitund í hugum fátæklinganna. Núna vantar þá prógram og þá vantar líka meðvitaða og stéttvísa pólitíska framvarðarsveit sem getur sett framsækinn kúrs, sett fram kröfur, sett dagskrá og verið valkostur við gamla valdakerfið. Í raun mætti segja að það sé gott að slíkt afl sé ekki til núna; ef svo væri mundi það í fyrsta lagi líta út fyrir að standa fyrir innflytjendur eða afkomendur þeirra, þ.e.a.s. eins og eins konar kynþátta-afl, og virka fælandi á aðra Frakka svo stjórnvöld gætu klofið hreyfinguna og sigrað hana sundraða. De Villiers, Le Pen og fleiri afturhaldsseggir eru meðal raddanna sem vinna að slíkri sundrun, með tali um „íslamvæðingu Frakklands“ og „eþnískt borgarastríð“ -- divide et impera að hætti fasista. Í öðru lagi mundi slíkt afl ef til vill leiða uppreisnina í ógöngur, því vegna þess hvað sjálft fólkið á götuvígjunum á mikið eftir ólært í stjórnmálum er það kannski ekki tilbúið til að taka þátt í að móta framsækna stefnu, og því yrði hreyfingin ólýðræðisleg -- og sem slík líkleg til að falla um sjálfa sig. Ef aldan hjaðnar og undirstéttin nær pólitískum þroska, samböndum og atgervi fyrir næstu öldu, þá mun ég fylgjast með af ákafa.

Þessi uppreisn er ekki kynt af íslamistum, heldur er hún sekúlar. Stærstu samtök íslamista hafa meira að segja komið fram og skorað á fólk að hætta þessu -- með öðrum orðum, að sætta sig við ástandið, treysta stjórnmálamönnunum og reyna að fá málum sínum framgengt í borgaralegum farvegum þingræðisins. Þar með hefur forysta íslamista auðvitað afhjúpað sjálfa sig sem borgaralegt og afturhaldssamt afl. Maður veit samt ekki hvaða áhrif herskárri íslamistar munu hafa. Hitt er annað mál, að hugmyndafræði íslamisma er afturhaldssöm í meira lagi, hefur innbyggða híerarkíu og sameinar ekki þá sem ekki aðhyllast íslam. Hún mun því valda þeim vonbrigðum sem setja traust sitt á íslamska heimsbyltingu. Ef íslamistar ná miklum áhrifum er líklegt að þau áhrif verði skammvinn.

Í Frakklandi stendur mest arðrændi hluti hinnar vinnandi stéttar í uppreisn. Byltingarsinnar hafa nú tækifæri til að lyfta grettistökum til að glæða pólitíska vitund og skilning undirstéttarinnar. Á meðan hófsamari, borgaralegri vinstriöfl fordæma ofbeldið, bera róttækari öfl kennsl á uppreisnina sem stéttaátök. Maóistar, anarkistar og fleiri hamast nú á akri byltingarinnar. Nú er lag að byggja skipulagða hreyfingu, sameina róttækustu öflin og undirbúa næstu uppreisnaröldu -- því hennar er kannski ekki langt að bíða.

Sjaldan er ein uppreisnaraldan stök.

=== === === ===
Ég vil líka benda á ritstjórnargrein WSWS um neyðarlögin sem hefur verið gripið til í Frakklandi, m.a. um rasismann og þá aðför að lýðræði sem felast í þeim. Financial Times flytur líka frétt um téð lög og gagnrýni sem stjórnvöld hafa orðið fyrir.
=== === === ===
Á WSWS er einnig grein um pyntingar Bandaríkjamanna.

No comments:

Post a Comment