Monday, November 7, 2005

Óeirðirnar í París

Frakkland: Maður drepinn, kveikt í 1300 bílum, tvær löggur illa leiknar. Óeirðir hafnar í svo mörgum sem 300 bæjum til viðbótar. Það eru miklar fréttir af atburðum, en minni analýsa. Borgarstjóri Rómar segir aðlögunarvanda innflytjenda vera vandamálið. Til skamms tíma var látið eins og ástæðan væri að tveir strákar hefðu grillast í spennistöð.
Ástæðan fyrir óeirðunum er hvorki að innflytjendur aðlagist ekki frönsku samfélagi né að tveir strákar hafi steikst á rafmagnsgirðingu, það var bara dropinn sem fyllti mælinn, neistinn sem kveikti bálið - ástæðan er spenna milli stéttanna í París, og þar sem innflytjendur eru meira og minna í lágstétt.
Í fyrsta lagi eru það atvinnulausir eða mjög lágt launaðir öreigar sem flýja eymdina í N-Afríku til koma til lands tækifæranna, Frakklands, sem er þungamiðja fjármagnsins og betra að sjá sér farboða þar en heima fyrir. Í öðru lagi reyna stéttsvikul frönsk verkalýðsfélög að stemma stigu við innflutningnum til þess að halda uppi launum franskra verkamanna, í staðinn fyrir að taka á móti þeim sem velkomnum bræðrum og berjast saman fyrir sameiginlegum réttindum. Í þriðja lagi reynir yfirstéttin að kljúfa undirstéttina innbyrðis með því að sá fræjum tortryggni og ótta (rasisma) og torvelda undirstéttinni þannig að ná vopnum sínum. Það er sagt í fréttum að þetta séu innflytjendur. Ég efast ekki um að þeir séu stór hluti, eða í meirihluta, en þetta eru ekki innflytjendur sem slíkir, heldur eru þetta fyrst og fremst öreigar. Þeim er gróflega mismunað á mörgum sviðum, þeir fá lægri laun, þeir fá jafnvel ekki ríkisborgararétt og eru utan við meginstraum fransks samfélags o.s.frv.
Tveir grillaðir strákar hafa sjaldan verið tilefni til tveggja vikna óeirða, einir og sér. Dauði þeirra er bara hvati sem leysir spennuna úr læðingi. Innflytjendastefna borgaralegra stjórnvalda er tvískinnungsleg: Í aðra röndina gefa þau sig yfirleitt út fyrir að vera umburðarlynd og vilja leyfa fólki að flytja inn í landi, en þegar þangað er komið og innflytjendurnir eru farnir að mala gull fyrir atvinnurekendur, þá nær velvildin ekki lengra. Það er ekki pólitískur vilji fyrir því að bjóða innflytjendur í alvöru velkomna, eins og með því að veita þeim ókeypis kennslu í tungumálinu eða ríkisborgararétt fyrr en eftir dúk og disk.
Stærstu samtök bókstafstrúaðra múslima í Frakklandi hafa gefið út fatwa um að óeirðunum eigi að linna og það strax. Þeim linnir samt ekki. Getur verið að óeirðirnar séu ekki af trúarlegum toga spunnar? Réttara sagt: Gefur það ekki auga leið að þær eru það ekki? Þeir sem standa í þessum óeirðum eru fátæk ungmenni sem eygja enga von í lífinu í Frakklandi og eru undir stöðugu áreiti lögreglu.
=== === === ===
Eþíópía og Erítrea eru á barmi þess að fara í stríð -- aftur. Lesið nánar um Erítreu og um Eþíópíu og hvað er á seyði þarna.
=== === === ===
"Aðgerð stáltjald" (hmm.. minnir á eitthvað) kostar bandarískan hermann lífið í bænum Husaybah. Í ljósi minna eigin skrifa frá því í gær læt ég þessa beinu tilvitnun fylgja, leturbreytingar eru mínar:
U.S. officials have described Husaybah, which used to have a population of about 30,000, as a stronghold of al-Qaida in Iraq, which is led by Jordanian extremist Abu Musab al-Zarqawi.*
Þetta heitir að mála skrattann á vegginn. Sama lygin er endurtekin nógu oft til að fólk fari að trúa henni.

No comments:

Post a Comment