Tuesday, November 22, 2005

Motörhead / In Flames / Girlschool, Brixton Academy, 19. nóvember 2005

Ég ákvað að bregða undir mig betri fætinum og skella mér til London á þessa girnilegu tónleika. Þar sem ferðafélagi minn forfallaðist var ég einn á ferð og með aðgöngumiða sem ég þurfti að koma í verð. Í lestinni til Brixton gaf ég mig á tal við tvo Breta sem voru augljóslega á leiðinni á sömu tónleika og fylgdi þeim (rataði enda ekki á staðinn). Kom við á knæpu, og eftir ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að selja hinn miðann, þá gaf ég hann heimilislausum Indverja sem varð ákaflega glaður! Síðan fórum við á tónleikana. Girlschool höfðu því miður lokið settinu sínu þegar við komum og In Flames voru byrjaðir. Við fréttum að Lemmy hefði komið á svið með Girlschool í laginu Don't Touch -- og vorum eðlilega vonsviknir að hafa misst af því. In Flames hef ég aldrei náð að fíla nógu vel, en þeir voru ágætir.
Næst stigu Motörhead á svið. Ég hafði fengið mér í annan fótinn og tróð mér í þvöguna fremst, svo ég man því miður ekki mikið af lagalistanum. Hitt man ég, að þeir tóku nóg af gömlum, góðum slögurum sem ég þekkti vel, svo ég get ekki kvartað. Fékk líka eyrnasuð, marblettir og harðsperrur, sem heyra til góðum tónleikum. Þegar aðalsettinu var lokið tóku þeir aukalög, fyrst óplöggað lag af Inferno, sem ég get ómögulega munað hvað heitir en kom mjög vel út og vakti mikla lukku. Þeir klykktu svo út með Ace of Spades (nema hvað).
Það eina sem ég hef út á tónleikana að setja var að hljóðið var ekki nógu hátt. Ekki nógu hátt. Á Motörhead. Öðruvísi mér áður brá. Að öðru leyti er ég sáttur og vel það. Í stuttu máli sagt var það vel þess virði að gera sérstaka ferð til London á þessa tónleika.

Og þar hafið þið það.

No comments:

Post a Comment