Friday, November 4, 2005

Hugleiðing út frá frétt um Zimbabwe

Morgan Tsvangirai, leiðtoga Movement for Democratic Change (MDC), stjórnarandstöðuflokksins í Zimbabwe, er að takast að splundra sínu eigin liði. Það eru góðar fréttir fyrir Robert Mugabe. Ef við heyrum eitthvað um þetta í fjölmiðlum hér á Vesturlöndum, þá á ég von á að þessi þróun verði hörmuð, að lýðræðisvinirnir (þeir kenna sig jú við lýðræði) skuli þarna spila rassinn úr buxunum.

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála. Ekki því að þeir séu að spila rassinn úr buxunum, heldur að þeir séu kallaðir lýðræðisvinir.

Ekki það að ég sé sérstakur stuðningsmaður Mugabe -- en hann hefur ekki hlotið sanngjarna umfjöllun á Vesturlöndum. Ég held það megi hafa það fyrir þumalputtareglu, að þegar þjóðhöfðingjar eru úthrópaðir sem villimenn, brjálæðingar, vitleysingar eða illmenni, þá ætti að gefa því gaum, hvað þeir standa fyrir í alvörunni. Mugabe hefur vissulega margt ljótt á samviskunni -- t.d. meðferð samkynhneigðra í Zimbabwe og hvernig fátækrahverfi hafa verið jöfnuð við jörðu í Harare, en íbúunum sagt að hypja sig „heim til sín“ (á sama hátt og það mætti reka mig „heim“ í Þingeyjarsýslu vegna þess að faðir minn flutti þaðan fyrir 40 árum síðan).

Gallinn er bara að það er ekki þetta sem Mugabe er fyrst og fremst úthrópaður fyrir. Hann er úthrópaður fyrir að gera upptæka búgarða í eigu forríkra hvítra bænda og skipta þeim upp á milli svartra landbúnaðarverkamanna og fátækra bænda. „Land to the tiller.

Ég held að það sé rétt hjá honum að gera það. Hver á skilið að eiga meira land en hann getur ræktað sjálfur eða meira land en hann þarf að nota, meðan nágrannarnir hanga á horriminni? Ég, fyrir mitt leyti, hefði reyndar meiri trú á að samyrkjuvæða þessa búgarða -- en engu að síður er Mugabe þarna að gera það sem er réttlátt -- og er úthrópaður fyrir það á Vesturlöndum. Á sama tíma hefur hann verið berorður í harkalegri og oft beinskeyttri og réttmætri gagnrýni á vestræna heimsvaldasinna, og hefur gengið sæmilega vel að losa Zimbabwe úr klóm vestræns heimsvaldaauðmagns og heimsvaldasinnaðra alþjóðastofnana.

MDC er stjórnarandstaðan, sem hefur háð mikla baráttu gegn „einræðisherranum með hundaæðið“ -- en er allt sem sýnist? Ein aðalkanónan í MDC er Ian Smith -- hann var leiðtogi apartheidstjórnarinnar í Zimbabwe meðan landið hét Norður-Rhódesía, áður en Mugabe komst til valda og afnam apartheidkerfið. MDC er afturhaldsafl. Þeir eru ekki bara með það á stefnuskránni að bola Mugabe forseta frá, heldur líka að opna landið fyrir erlendri fjárfestingu (lesist: að vestrænir auðjötnar geti keypt upp hvað sem þá lystir af náttúruauðlindum og infrastrúktúr). MDC er stjórnmálaafl sem mætti líkja við „appelsínugulu byltinguna“ í Úkraínu eða sams konar „byltingar“ í Serbíu, Georgíu og víðar, Solidarnosc í Póllandi, stjórnarandstöðuna í Venezuela og svo framvegis.

Afturhaldsbyltingarafl. Byltingarafl af þeirri gerð sem lætur Sjálfstæðismenn taka sér popúlíska frasa í munn.

Stjórnmálaafl sem gefur sig út fyrir að standa fyrir lýðræði og mannréttindi en stendur fyrst og fremst fyrir
kapítalisma og þann hluta valdastéttarinnar sem telur sig missa spón úr aski sínum vegna stjórnarháttanna. Og hlýtur tilstyrk vestrænna heimsvaldasinna til þess arna.

Zimbabwe þarfnast vissulega mannréttindabyltingar, lýðræðisbyltingar, iðnbyltingar, kvenfrelsisbyltingar og fleiri slíkra. Kapítalískrar byltingar þarfnast það ekki. Landið er nógu fátækt samt. Við afturhaldsaflinu MDC segi ég nei takk. Ég segi líka nei takk við Mugabe -- en viðurkenni fúslega að honum er ekki alls varnað.

No comments:

Post a Comment