Thursday, November 24, 2005

Af ferðum mínum í London

Á fimmtudaginn var flaug ég til Bretlands til að fara á tónleika Motörhead á laugardagskvöldi. Ég fann vott af hálsbólgu á miðvikudagskvöldi, og í ljósi þess að margir sem ég þekki hafa veikst undanfarið, þar á meðal ferðafélaginn sem forfallaðist, þá tók ég enga áhættu, heldur keypti mér koníakspela í fríhöfninni, sem ég hef dreypt á síðan til að halda mögulegri hálsbólgu í skefjum. Þetta gamla húsráð hafði að vísu þann fylgifisk að ég fékk mér í annan fótinn í London.
Farfuglaheimilið sem ég gisti á heitir Piccadilly Backpackers og er næstskítugasta farfuglaheimili sem ég hef gist á, á eftir Yellow Submarine í Búdapest. Hins vegar var morgunverðurinn þar sá versti sem ég hef fengið á gististað: Tvær ristaðar sneiðar af franskbrauði, smjörlíki og sultuklípa, skolað niður með instantkaffi.
Á föstudaginn byrjaði ég á að þvælast eitthvað með neðanjarðarlestum, ráfa um miðbæinn og skoða enskar krár. Í síðdeginu fór ég í uppáhalds bókabúðina mína, Housmans Bookshop, og gerði þar stórinnkaup: Tvo fulla pappakassa af bókum, aðallega gömlum, auk fjölda tímarita og smákvera. Allt rammpólitískt, að sjálfsögðu, og rauðara en karfi. Besta viðskiptavini dagsins var aukinheldur boðið upp á rauðvín og ljóðalestur. Bækurnar sem ég keypti vógu alls 22 kílógrömm – svo það var eins gott að þetta var planið. Ég hafði nefnilega tekið með mér minnsta mögulega farangur: Bakpoka sem vó aðeins 3 kílógrömm, og ég þurfti að fylla upp í með tómum skókassa.
Á laugardaginn vaknaði ég snemma og tók lest og svo strætó norður í Highgate. Þar fór ég fyrst á pósthús og sendi eitt póstkort til kærs vinar, gekk síðan í gegn um gullfallegan almenninsgarð og kom þá að Highgate-kirkjugarði. Það er eini kirkjugarður sem ég hef komið í þar sem er aðgangseyrir, £2.00 – en reyndar þarfnast hann sárlega viðhalds, svo ég borgaði með bros á brá. Gekk smá hring um garðinn, sem er gamalgróinn og mjög fallegur, uns ég kom að erindi mínu: Gröf Karls Marx. Á henni er feiknamikil brjóstmynd af karlinum, steypt í brons og stendur á miklum sökkli, líklega allt í allt á fjórða metra á hæð. Á þessari hjartnæmu stund tók ég ofan í lotningu og vottaði virðingu mína.
Ég fór svo niður í bæ aftur. Rápaði fyrst um Leicester Square og Kínahverfið, síðan fór ég í búð og keypti dálitla jólagjöf. Fór svo aftur á skítuga farfuglaheimilið, losaði mig við hafurtask, og tók næstu neðanjarðarlest suður til Brixton. Þar sem ég var einn á ferð og ókunnugur tónleikaslóðunum, gaf ég mig á tal við tvo Breta sem voru greinilega á leið á sömu tónleika. Hékk ég síðan með þeim restina af kvöldinu. Áður en við fórum á tónleikana fórum við á knæpu, þar sem ég gekk stafkarls stíg og reyndi að koma í verð umfram-aðgöngumiða sem ég hafði undir höndum, sökum forfalla ferðafélagans. Ekki tókst mér það. Skömmu áður en við yfirgáfum knæpuna kom vesældarlegur útigangsmaður að okkur til að sníkja peninga. Annar Bretinn gaf honum smáaura. Ég gaf honum aukamiðann. Ef hann gæti ekki selt hann kæmist hann í öllu falli á tónleika, auk þess sem ég var þá laus við fyrirhöfnina við að koma honum í verð. Útigangsmaðurinn varð himinlifandi.
Á sunnudagsmorgun tékkaði ég út af farfuglaheimilinu skítuga og settist inn á nærliggjandi veitingastað, þar sem ég fékk mér vel að éta. Sökum þess að ég var með 14 kílóa bókakassa og 8 kílóa bóka-bakpoka nennti ég lítið að þvælast um. Át í ró og næði, tók svo lest á Liverpool Street lestarstöðina, tók næstu lest til Stansted, og beið þar í 5 klukkutíma, las og drakk ávaxtasafa.
Svo flaug ég heim.

No comments:

Post a Comment