Thursday, November 3, 2005

Innflutt vinnuafl og pyntingar

Árni Magnússon þykist vera reiður út af starfsmannaleigum, eins og hann sé sjálfur saklaus í þessu máli. Mér sýnist hans afstaða í málinu vera hin popúlískasta -- ég leyfi mér að draga það í efa að hann hafi orðið andvaka yfir hlutskipti austur-evrópskra verkamanna fyrr en það fór að vekja svona mikla athygli.
Í fréttum útvarpsins heyrði ég einhvern - var einhver frá Vinnumálastofnun? - tala um að það væri ótækt að „erlent vinnuafl væri haft að féþúfu“! Ég skellti upp úr! Haft að féþúfu?? Það er það sem auðvaldsskipulagið gengur út á til að byrja með, að hafa fólk að féþúfu! Íslenskt auðvald flytur inn erlent vinnuafl til þess eins að hafa það að féþúfu, á sama hátt og íslenskt auðvald stendur í rekstri fyrirtækja til þess eins að hafa fólk að féþúfu, og í tilfelli íslenska vinnumarkaðarins eru það íslenskir, vinnandi menn sem eru hafðir að féþúfu.
Þetta er það sem vinnandi fólk á sameiginlegt, hvaðan sem það er upprunnið, að vera haft að féþúfu. Mér finnst það ótækt, já - og ég fagna því ef Vinnumálastofnun er mér sammála um það og styður það að auðvaldsskipulaginu verði kollsteypt og efnahagskerfið endurskipulagt á sósíalískum grundvelli.
=== === === ===
Leiðari DV í dag benti á góðan punkt. Fangaflutningarnir um Keflavíkurflugvöll eru eðlilegur hluti af því að taka þátt í „hryðjuverkastríði“ og hafa herstöð á Miðnesheiði til að byrja með. Ef okkur óar við pyntingum og þátttöku Íslendinga í þeim - þá liggur beinast við að draga okkur út af „lista hinna viljugu“ og segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu í leiðinni.
Talandi um „lista hinna viljugu“, þá hef ég heimildir fyrir því að Davíð og Halldór hafi verið í móttöku erlendis, gott ef ekki í London, snemma árs 2003, verið þar á máli við eina af aðalsprautunum í Íraksstríðinu - gott ef það var ekki Blair - og, eftir að hafa drukkið nokkur glös, sagt honum digurbarkalega og hálf-hlæjandi að setja „okkur bara á þennan lista“.

No comments:

Post a Comment