Tuesday, November 8, 2005

Af „óeirðunum“ í Frakklandi

Ef ég læsi ekkert nema Propaganda Matrix mundi ég sennilega halda að úti í heimi væru „einlæg“ ofbeldisverk fátíð, að fólk tæki sér hér um bil aldrei vopn í hönd án þess að illa innrættir valdsmenn toguðu í spotta og neru saman höndunum. Ég held það ekki. Fólk kemst -- oftar en ég hefði kosið -- í þær aðstæður að eðlisávísun, réttlætiskennd eða örvænting sparkar því á fætur og það hleypur út með lurk eða grjót í hendi.
Því nefni ég Propaganda Matrix, að þar er endurbirt grein eftir Wayne Madsen: „Neo-con/fascist provocateurs behind French riots?“ heitir sú. Í henni þykir mér koma vel fram hvað pólitísk sýn íhaldsmannanna á Propaganda Matrix getur verið þröng. Eru agentes provocateurs á bak við uppþot þar sem þúsundir ungmenna sjá ástæðu til að fara í götubardaga? Eru þetta kriminel elemtna í stjórnkerfinu sem eru að verki? Sko, í flestum eða öllum stjórnkerfum eru vissulega kriminel element, og agent provocateur-aðferðin er vel þekkt og mikið notuð. Madsen skrifar:
The possibility that neo-cons and their fascist allies are manipulating the violence in France to their own advantage has the net result of bringing France into the neo-cons' oft-stated goal of a "Clash of Civilizations" between the West and the Muslim world.
Hann skrifar einnig:
[M]ost of the rioters, mostly from North Africa and Western Africa, are not even practicing Muslims, making the possibility of "Fifth Column" provocateurs being behind the violence all the more likely.
Vitið þið hvað? Ég held að Madsen hafi rangt fyrir sér. Ekki kannski að öllu leyti -- mér finnst það meika sens að stjórnvöld reyni að nýta sér svona ástand eftir megni, eftir því sem það er hægt -- það er að segja, reyni að haga seglum eftir vindi, eins og hvaða stjórnvöld sem er mundu reyna. Það kæmi mér vissulega á óvart ef ríkisstjórn Frakklands hefur ekki fært aukið eftirlit og sterkari valdstjórn ofar í forgangsröðina. Út af fyrir sig kemur það heldur ekki á óvart þegar ríkisstjórnir sviðsetja ofbeldisverk gegn sjálfum sér til þess að réttlæta fasískar ráðstafanir. En í þessu tilfelli þykir mér helst til langt seilst.

„Eru þetta óeirðir eða eitthvað meira?“ spurði ég vin minn í tölvupósti, franskan erkikomma. Eitthvað mikið meira, sagði hann, „þetta er uppreisn fólksins!“ og ég er ekki frá því að ég hafi lesið eftirvæntingu úr orðum hans. Er þetta það? Er byltingin loksins að koma? Ekki veit ég það, og því síður veit ég hvernig þessu lyktar. Hitt veit ég, að við sem hérna sitjum, fjarri atburðunum í Frakklandi, heyrum ekki nema takmarkaðan hluta af því sem er athygli vert. Áðurnefndur vinur minn benti mér á síðu þar sem aðeins önnur hlið kemur fram en sú sem við lesum í Morgunblaðinu. Uppreisn fólksins. Atvinnulausir ungir lágstéttarmenn sem hafa fengið nóg af því að það sé traðkað á þeim. Neisti kveikir bál. Kannski eru fátækrahverfin ekki bara full af aumingjum sem hafa spilað illa úr sínu. Kannski hefur valdstjórnin höggvið einu skipti of oft í sama knérunn. Kannski er komin upp hreyfing sem er í senn víðfeðm, sekúlar og bálreið. Hreyfing sem brettir upp ermarnar, kreppir hnefana og hjólar beint í óvininn.
Kannski. Ég býst við að komi í ljós.
=== === === ===
Annars fær Wikipedia hrós fyrir grein sína um uppþotin. Alfræðiorðabókarfærsla sem er uppfærð hér um bil í rauntíma. Spónn úr aski meginstraums-fjölmiðlanna?

No comments:

Post a Comment