Sunday, November 6, 2005

Amon Amarth og Jötunmóður

Jötunmóður í gærkvöldi heppnaðist alveg ágætlega. Nokkrir tugir mættu og drukku öl, og síðan var farið á Grand rokk. Sjálfur fór ég um 1-leytið, sá síðustu lögin með Sólstöfum og síðan Amon Amarth. Með fullri virðingu fyrir upphitunarhljómsveitunum, þá meikaði ég bara ekki meira. Allavega, ég var gyrður sverði og með hjálm á höfði. Í þvögunni voru annar hjálmur, annað sverð, einn skjöldur og tvær axir, og með þessu börðumst við. Ég vó nokkra og var veginn nokkrum sinnum. Skemmtileg tilbreyting að gera svona á tónleikum.
Annað sverðið og báðar axirnar lifðu kvöldið af og ég hélt á þeim heim. Fyrir utan múnderinguna sem ég var í, þá vöktu þessar axir talsverða athygli. Ein stelpa spurði: „Hvað ertu að gera með þessar axir?“ Ég svaraði: „Nú, ég er auðvitað að fara að drepa menn með þeim.“ Þá tók hún á öðru axarblaðinu og sagði: „Þú ert ekkert að fara að drepa neinn, hún er úr plasti!“
Já, nó sjitt, öxin var úr plasti. Ég gat þá greinilega ekki verið á leiðinni að drepa neinn með henni, en held hins vegar að ég þurfi að eiga orð við vopnasalann minn á mánudaginn; hann hefur hlunnfarið mig helvískur.

No comments:

Post a Comment