Wednesday, October 26, 2005

Rosa Parks og allsherjarverkfallið

Ég las í Mogganum að Rosa Parks er látin, í hárri elli. Það eru ekki nema 5 vikur í 1. desember, en það var á þeim degi fyrir 50 árum sem hún neitaði að víkja sæti fyrir hvítum manni, svo sem frægt er orðið. Hver sagði að lög og réttur hlytu að vera það sama? Hver sagði að lögbrot hlytu að vera glæpsamleg?
Allavega stendur nokkuð til eftir 5 vikur, á 50 ára afmæli atburðarins sem markar upphaf Civil Rights Movement. Bandaríska Troops Out Now-bandalagið hefur skipulagt nokkur fjöldamótmæli gegn Íraksstríðinu. Þau mótmæli hafa heppnast geysilega vel og hefur malað bandalaginu talsvert pólitískt kapítal. Nú verður látið reyna á hvort þetta pólitíska kapítal stendur undir eins dags allsherjarverkfalli í Bandaríkjunum.
Eins og ég hef áður sagt, þá tefla menn djarft þar á bæ. Ég mundi ekki hætta á þetta, það er of mikið í húfi og óvissan of mikil. Ef þetta heppnast ekki er það auðmýkjandi ósigur, en ef það heppnast, þá er það mjög mikill sigur og mun auka pólitískt kapítal til muna og verða fyrsta skrefið í öðrum kaflanum í aðdraganda voldugrar and-heimsvaldasinnaðrar hreyfingar.
Eins innilega og ég vona að þetta heppnist, þá get ég ekki sagt að ég sé of bjartsýnn. Ég held að ávöxturinn sé ekki orðinn nógu þroskaður til að tína hann núna. En ég býst við að við sjáum til. Kannski er hin langþráða bylting á næsta leiti.

No comments:

Post a Comment