Wednesday, October 5, 2005

Það er haft eftir Santosh Budha Magar, einn af leiðtogum maóista í Nepal, að maóistar geti mögulega verið reiðubúnir til viðræðna við stjórnvöld, ef þau virði vopnahléð sem maóistar lýstu nýlega yfir, og veiti þegnunum meiri réttindi. Þetta kann vel að vera rétt; í Nepal reyna allir hinna þriggja aðila að spila á hina tvo aðilana til að bæta sína eigin víg- eða samningsstöðu. Krúnan á núna í vök að verjast þótt hún hafi öll völd að forminu til. Indverska sendnnefndin sem er í landinu segir t.d. að kóngsi verði stöðugt einangraðri. Maóistar ráða drjúgum hluta landsins en eiga nokkuð erfitt með að ná á sitt vald þéttbýlli svæðunum. Þingræðisflokkarnir sjö reyna að semja samtímis við krúnuna og maóista - það er því ekki nema eðlilegt að maóistar reyni sama. Ég mundi ekki kalla þetta að leika tveim skjöldum, heldur að haga seglum eftir vindi.
Stefna maóista er ekki að mölva allar stofnanir núverandi stjórnar núna og byggja síðan upp alþýðulýðveldi strax á eftir. Þeir stefna að því að taka þetta í a.m.k. tveim áföngum. Áfanginn sem þeir stefna að núna er að stofna lýðræðislegt lýðveldi (democratic republic) í samvinnu við borgaraleg öfl, og reyna svo að vinna innan þess að næsta áfanga, sósíalisma í Nepal. Í aðra röndina spyr ég mig hvort þetta séu tækifærissinnuð svik við byltinguna - en reyndar held ég að þetta sé skynsamlegt. Annars vegar hafa þeir ekki burði til að leiða byltinguna til lykta strax. Hins vegar er það rétt hjá þeim að borgaraleg bylting sem steypir einveldi og stofnunum einveldisins og kemur á borgaralegum þjóðfélagsháttum ætti eiginlega að koma á undan sósíalískri byltingu. Á tímabili borgaralegra þjóðfélagshátta er þá vonandi hægt að byggja upp iðnaðinn og efnahaginn og þannig væri auðveldara að koma á sósíalisma en í löndum eins og Sovétríkjunum eða Kína, þar sem handstýra varð óhemjuhraðri iðnvæðingu, með öllum þeim fórnum sem það hafði í för með sér.

No comments:

Post a Comment