Thursday, October 13, 2005

Já, trúarnöttarar eru líka til í ligeglad Danmörku. Sú var tíðin að Boðorðin tíu, þau er krysslignar menn eiga að fylgja, innihéldu bara eitt "þú skalt ekki girnast"-boðorð. Þá var tíunda boðorðið þetta: "Þú skalt ekki gera þér mynd af drottni guði þínum." Með öðrum orðum áttu krysslingar ekki að vera skurðgoðadýrkendur (Erich von Däniken hafði aðra skýringu á þessu samt). Boðorðinu var breytt einhvern tímann á ármiðöldum, kannski til þess að auðvelda trúboð meðal heiðingja, rétt eins og heiðnar hátíðir á borð við jól og páska voru teknar upp til þess að auðvelda trúboð meðal fólks sem hélt upp á þær. Ef "guð" gefur fyrirmæli um að aðdáendur hans skuli ekki búa sér til myndir af honum, og leiðtogar aðdáendaklúbbsins segja síðan að það sé allt í lagi, hvað eiga þá sannkrysstnir til bragðs að taka? Væri rökrétt að gera iconoclastíska menningarbyltingu og hreinsun á kirkjum landsins, byggðasöfnum og heimilum trúaðra?
=== === === ===
Ég er einn af þeim sem hafa ekki nennt að setja sig inn í Baugsmálið. Eða, réttara sagt, ég hef ekki nennt að setja mig inn í smáatriðin. Það er samt eitt aðalatriði sem mér þykir merkilegra en önnur: Baugsmálið er skólabókardæmi um innbyrðis mótsetningar auðvaldsins. Sama gamla sagan. Nýr sproti vex úr grasi valdastéttarinnar, fer að aukast að umsvifum á kostnað valdamanna sem fyrir eru, þeir fara að ókyrrast og reyna að spyrna á móti. En þar sannast hið fornkveðna, að hið unga, vaxandi sigrar einatt hið gamla, fúnandi. Ég held, í alvöru talað, að þegar sá dagur rennur upp að ég skrifi bók um stéttabaráttuna á vorum dögum, þá verði mál Baugsmanna tekið sem dæmi um innbyrðis mótsetningar auðvaldsins.
=== === === ===
Talandi um málefni og átök auðvaldsins, þá þykir mér líka athyglisvert hvað olíusamráðsmálið hefur farið hljótt að undanförnu. Kostaði það ekki einhvern borgarstjóra hempuna á sínum tíma? Voru kannski óvandaðir menn bara að nýta sér tækifærið til að koma pólitísku höggi á R-listann?
=== === === ===
Sýrlenskur ráðherra "talinn" hafa framið sjálfsmorð, hermir Mogginn. Nú þykir sumum þetta fráfall ekki hreinlegt. BBC setur gæsalappir utan um 'suicide' og segir "Kanaan is said to have shot himself at his Damascus office" (leturbreyting mín).
Þegar áhrifamenn "fremja sjálfsmorð" eða "deyja af slysförum" undir grunsamlegum kringumstæðum skýtur því oftast upp í kollinn á mér hvort aðrir menn hafi virkilega ekki "hjálpað til". Eins og spekingurinn sagði, Hjálpaðu tilviljuninni og tilviljunin mun hjálpa þér.
Hvað ef það væri sagt í fréttunum að hr. Kaanan hefði nauðgað sjálfum sér og síðan keyrt yfir höfuðið á sér á bílnum sínum?

No comments:

Post a Comment