Wednesday, October 5, 2005

Kona dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að leyna Abimael Guzman (sem einnig er þekktur sem General Gonzalo og hefur útnefnt sjálfan sig "fjórða sverð marxismans"). Ég hefði leynt honum líka, þótt það hefði kostað þessa áhættu. Í fréttinni er hreyfingin sem Guzman leiðir kölluð "Skínandi stígur" - Sendero Luminoso. Ég hef heimildir fyrir því að þessi nafngift sé della og rugl, skáldskapur áróðursdela CIA og perúvíönsku leyniþjónustunnar, sem unnu hörðum höndum að því að sverta perúvíanska byltingarmenn. Hið rétta nafn þessarar hreyfingar - sem virðist vera flestum gleymt, þökk sé árangursríkum áróðri - er Kommúnistaflokkur Perú (maóistar). Og hananú!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessa stuttu frétt ætla ég að leyfa mér að birta í heild sinni:

Nánast stjórnleysi í Írak


Ástandið í Írak er hrikalegt og í raun er stjórnleysi ríkjandi, segja íraskir fræðimenn, sem Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur um sögu Mið-Austurlanda, hitti á ráðstefnu í Amman í Jórdaníu fyrir nokkrum dögum. [*]

Þurfið þér frekari vitnanna við? Ég á ekki von á öðru en að þarna fari menn sem vita um hvað þeir eru að tala. Ég skal éta hattinn minn ef mér skjátlast um að myndin sem við fáum í fjölmiðlum af ástandinu í Írak er alvarlega skökk og gefur ekki góða mynd af ástandinu þar - já, við fáum þá mynd að ástandið sé vissulega slæmt, en það sé meira og minna takmarkað við einhvern "súnní þríhyrning" sem ég hugsa að einhver bandóðrískur áróðursdeli hafi fundið upp. Ástandið er hrikalegt. Ég vona bara - innilega - að Írakar láti hernámsliðinu ekki takast að kljúfa þjóðina eftir marklausum trúar-eþnískum brotalínum. Það sem Íraka vantar er sterkur og óbilgjarn kommúnistaflokkur sem byggist á stéttarvitund vinnandi Íraka og þjóðernisvitund Íraka sem Íraka, auk þess að hafa tengsl við framsæknar og and-heimsvaldasinnaðar hreyfingar um víða veröld.

No comments:

Post a Comment