Friday, October 28, 2005

Hugleiðing eftir lestur kversins Hvernig snúa má heiminum á réttan kjöl

Ég var að lesa kverið Hvernig snúa má heiminum á réttan kjöl. Það er mikið vit í því og ég held að ég geti lýst mig sammála flestu, þótt það hefði þolað prófarkarlestur. Það sem mér finnst athyglisvert er að ég les út úr kverinu það sama og ég mundi búast við að frjálslyndur marxisti mundi skrifa. Orðavalið er ólíkt, en hugsunin sú sama. Þ.e.a.s. stór hluti af innihaldi þessa rits er það sama og stór hluti af þeim ályktunum sem ég hef sjálfur dregið af frjálslyndum marxisma.

Það er mikið fjallað um firringu og samsömun við hugmyndakerfi, valdastrúktúra og önnur blæti – sem er fyllilega í samræmi við marxískar kenningar um blætiseðli firrtrar vinnu og við falska sjálfsvitund sem trúarbrögð, þjóðerniskennd og fleiri slík apparöt fylla fólk af. Talað er um hvernig það sem höfundur kallar „framleiðnisamskipti“ – en ég kalla „framleiðsluafstæður“ – hélst (a.m.k. að miklu leyti) í ríkjunum sem hafa kennt sig við sósíalisma – og af valdboðstengdum framleiðsluafstæðum leiðir að ný valdastétt verður til = sósíalíska ríkið spillist innan frá.

Þá kemur fram í ritinu marxísk útskýring á því hvernig gildisauki er framleiddur af vinnandi manni en arðræninginn hirðir hann, og enn fremur kemur fram sú marxíska sýn að það sé hnattræn samstaða vinnandi fólks sem sé fær um að bylta núverandi kerfi.

Nú veit ég ekki hvaða nasaþef höfundur hefur af marxískum pælingum. Annað hvort hlýtur hann að vera einhver, eða þá að hann hefur komist að svipuðum niðurstöðum sjálfur. Á hvorn veginn sem er, þá færir ritið mér heim sanninn um hvað aukin samskipti marxista og anarkista geta gert báðum mikið gagn. Ég veit það sjálfur, fyrir mitt leyti, að ég sem róttæklingur og sem marxisti hef haft mikið gagn af því að lesa mér til um anarkisma. Sumt úr anarkistaritum hef ég tileinkað mér sjálfur, sumt hef ég þóst sjá að gangi ekki upp og hvers vegna það gerir það ekki. Ég er nokkuð viss um að marxismi og anarkismi bæti hvor annan upp ef vænn skammtur af eftirtekt og gagnrýnni hugsun er með í spilinu. Þannig að jafnframt því sem ég mundi hvetja aðra marxista til að lesa rit á borð við þetta og ýmis önnur og velta þeim fyrir sér, þá mundi ég að sama skapi hvetja anarkista til að kynna sér marxisma.

Mér virðist vera mikill misbrestur á því að fólk úr öðrum hópnum kynni sér hvað fólk úr hinum hópnum hefur fram að færa. Þessi einangrun gerir engum gagn; það vantar gagnkvæmt hugmyndaflæði, það vantar gagnkvæma samvinnu og skilning og það vantar að hugmyndirnar fái að renna saman og slípast hvor á annarri þannig að niðurstaðan verði ein kenning sem er miklu betri en hvor hinna um sig: Samruni þess besta úr báðum en að göllunum slepptum.

Ýmsir pólitískir hópar sem ekki eru marxískir, a.m.k. ekki sem slíkir – ég nefni sem dæmi anarkista, feminista og baráttumenn gegn rasisma – melta með sér hugmyndir og vinnubrögð árum saman og komast eftir langa leit að niðurstöðum sem í sjálfu sér eru merkilegar, en eru gjarnan vel þekktar meðal þeirra sem hafa grúskað í marxískum skrifum. Er þörf fyrir að hjólið sé fundið upp í öllum herbúðum? Er ekki hægt að samnýta hugmyndirnar? Lítum t.d. á baráttuna fyrir frelsi kvenna og blökkumanna. Fyrir marxistanum liggur í augum uppi að hún er ekkert annað en stéttabarátta eða hluti af henni, að náttúrlegir bandamenn beggja eru þeir sem hafa sambærilega stéttarstöðu og að jafnrétti kynja og kynþátta er langsótt nema jafnrétti alls fólks sé markmiðið. Jafnrétti alls fólks - það er að segja, sósíalismi. Ég vil taka fram, til að fyrirbyggja misskilning, að ég er ekki að tala um miðstýrðan valdboðssósíalisma, heldur einfaldlega að fólk reki samfélagið sitt á jafnréttisgrundvelli og vinni frjálst, skipuleggi framleiðslu og dreifingu í sameiningu og að valdastéttir og valdabákn heyri sögunni til, hverju nafni sem það nefnist.

En aftur að samnýtingu hugmyndanna. Nú er til heilt vopnabúr af hvössum hugmyndum sem hafa orðið til í smiðju marxismans. Þökk sé valdboðssósíalisma tuttugustu aldar og stríði Vesturlanda gegn honum eru anarkistar, feministar, friðarsinnar, umhverfisverndarsinnar og fleiri (skiljanlega) hikandi við að leita í þessa smiðju. Í staðinn grúskar hver í sínu horni og brýtur heilann þangað til niðurstöður finnast. Þessar niðurstöður eru oftar en ekki í fullum samhljómi við hugmyndir sem hafa verið til hjá marxistum árum eða áratugum saman. Samt liggur fólk í því, jafnvel svo árum skiptir, að komast að niðurstöðum sem þegar voru til. Hugsið ykkur alla fyrirhöfnina sem mundi sparast ef fólk jarðaði fordóma sína og gripi í staðinn fegins hendi góðar hugmyndir sem þegar eru tiltækar og tilbúnar til notkunar. Fólk gæti þá í auknum mæli byggt á starfi annarra og hugmyndum fyrri hugsuða – þ.e.a.s. komist strax að niðurstöðum sem annars tæki óralangan tíma að komast að – og geta haldið áfram þaðan. Stytt sér leið framhjá ómældum heilabrotum og óteljandi mistökum.

Misskiljið mig ekki; heilabrot eru bara af hinu góða. En þar sem vel rökstudd niðurstaða hefur verið kynnt, hvað er þá betra en að kynna sér hana og taka svo gagnrýna afstöðu til hennar? Það er best að ég taki dæmi. Til er bók, afbragðsbók, sem nefnist Díalektísk og söguleg efnishyggja. Höfundurinn er Jósef Stalín. Höfundurinn einn fælir sjálfsagt flesta frá bókinni – en hún er samt ekki annað en vönduð og hnitmiðuð samantekt á grundvelli marxískrar heimsskoðunar, og kemur öðrum verkum Stalíns ekkert við. Í henni er rakið annars vegar hvernig sýn marxista á heiminn er og hins vegar sýn þeirra á mannkynssöguna. Það er semsagt annars vegar heimsskoðunin, sem sér heiminn sem síbreytilegan, undirorpinn breytingum sem eru háðar innra eðli hlutanna og ytri áhrifum og samspili þeirra. Kenning sem flestir fallast á þegar hún er útskýrð, og margir nota í reynd. Í öðru lagi er það mannkynssagan, hvernig hún lítur út í ljósi stéttabaráttunnar og hvað stéttabaráttan eiginlega er; hvernig breytingar á framleiðsluháttum geta af sér stéttaskiptingu af nýju tagi og hvernig mótsetningar eða andstæðir hagsmunir milli stétta hafa margvíslegar afleiðingar, þar á meðal byltingar. Ég mundi hvetja hvaða anarkista sem er til að lesa það litla kver og velta því fyrir sér án þess að láta sakaskrá höfundarins slá sig út af laginu.

Annað dæmi: Ríki og bylting eftir Lenín er bók sem útskýrir vel stéttareðli ríkisvaldsins og hvernig ríkisvaldið er afkvæmi yfirstéttarinnar og verkfæri hennar. Ég mundi setja hana á „must read“ lista hvers þess sem berst gegn ríkisvaldinu, þótt ekki væri nema til að setja hlutina í skýrara samhengi: Ríkisvaldið er ekki rót vandans heldur einkenni hans. Til að afnám ríkisvaldsins sé mögulegt verður annað að koma fyrst, afnám valdastéttarinnar – það er að segja, afnám auðvaldsins og framleiðsluafstæðna þess, en í stað eiginlegs valds komi félagslegt og efnahagslegt frelsi og fullveldi almennings, lárétt ákvarðanataka og syndikalísk skipulagning framleiðslunnar.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi en læt þessi duga að sinni. Lokapunkturinn er sá, að ég held að þeir, sem eru ekki marxistar sjálfir, sjái í marxisma eitthvað sem ég kannast ekki við í marxismanum sem ég aðhyllist; sjái forsjárhyggju, valdboðshyggju, einhverja fræðilega afskræmingu á náttúrlegri mannlegri réttlætiskennd og andófi gegn valdi, fræðilega réttlætingu á mannréttindabrotum eða eitthvað ópíum fyrir menntamenn. Við vitum öll að þetta er allt saman til í alvörunni. Það sem ég meina er að fræðikenningu ætti ekki að afskrifa vegna þess að bjánar, ofbeldismenn eða rugludallar hafi komið á hana óorði. Ég læt dogmatíska einstefnumenn ekki fæla mig frá því að horfa á heiminn í gegn um gleraugu marxismans. Anarkistar láta Unabomber eða svartklædda unglinga með molotoff-kokteila ekki fæla sig frá anarkisma. Þetta er alveg sambærilegt.

Menntun og reynsla eru tvær hliðar á sama peningi. Það hefur verið sagt að með því að mennta sig sé fólk að stytta sér leið til reynslu – þótt reyndar sé reynslan líka bráðnauðsynleg, þótt ekki sé nema til að setja menntunina í samhengi við hlutlægar aðstæður. Í heiðarlegri fræðimennsku og rökræðu eru (a) upplýsingar og kenningar teknar til greina með gagnrýnu hugarfari og (b) það hrakið sem ekki heldur rökum svo (c) það stendur eftir sem tryggast er vitað. Ég er sannfærður um að með slíku hugarfari er vel hægt að safna þráðunum sem hafa klofnað og klofnað frá því Marx og Bakúnín elduðu grátt silfur, sjóða saman heilsteypta byltingarkenningu sem heldur rökum, meikar sens, er fær um að sameina byltingarsinnað fólk og reynist vel á vígvelli stéttabaráttunnar, og gerir okkur kleift að komast að markmiðinu, að breyta þessu volaða samfélagi okkar til hins betra.

Við þurfum ekki öll að finna upp hjólið. Við getum öll tekið til greina niðurstöður sem eru þegar fundnar – notað vopn sem þegar eru til – og okkur veitir ekki af gagnrýnu aðhaldi sem í senn leiðréttir okkur, þegar við förum með rangt mál eða komumst að röngum niðurstöðum, og byggir upp þéttan og sjálfum sér samkvæman hugmyndalegan kjarna sem getur nýst okkur öllum í sameiginlegri baráttu fyrir betri heimi.

No comments:

Post a Comment