Wednesday, October 12, 2005

Í dag, miðvikudag 12. október, verð ég með Kommadistró Íslands í Snarrót í kjallara Kaffi Hljómalindar, Laugavegi 21, milli kl. 18 og 22. Til að fræðast um hvað stendur til boða eða fræðast nánar um distróið, sjá heimasíðu þess.
=== === === ===
Mbl.is hermir frá:
Forseti Níkaragva nær samkomulagi við Sandínista
Enrique Bolanos, forseti Níkaragva, hefur ákveðið í samráði við leiðtoga hinna vinstrisinnuðu stjórnarandstæðinga í Sandínistaflokknum, Daniel Ortega, að fresta til næsta árs stjórnarskrárbreytingu sem minnka átti völd forsetans.
Stjórnarskrárbreyting sem á að minnka völd forsetans, já, Íslendingar eru þá ekki eina þjóðin þar sem slíkt er á stefnuskránni. Síðan segir að Samtök Ameríkuríkja hafi "varað við því að lýðræðinu yrði stefnt í hættu við slíka breytingu og líklegt þótti að sú breyting myndi veikja stöðu ríkisstjórnarinnar." Stefnir það lýðræðinu í hættu að veikja stöðu hægrisinnaðs forseta? Annað hefði ég nú haldið. Hin svokölluðu "Samtök Ameríkuríkja" eru auk þess ekki beint trúverðugur gagnrýnandi. Þau eru stofnuð af Bandaríkjunum og Bandaríkin ráða hérumbil því sem þau vilja ráða innan samtakanna. Með öðrum orðum eru samtökin heimsvaldasinnuð í meira lagi, sbr. að Kúba var á sínum tíma rekin úr sambandinu. Var það út af áhyggjum af stöðu mannréttinda? Ætli það?
Áfram heldur fréttin: "Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, Robert B. Zoellick, sagði að Bandaríkin myndu hætta allri fjárhagsaðstoð við landið ef stjórnarandstaðan léti ekki af þeirri iðju að grafa undan forsetanum." -- Það er nefnilega það. Fyrst Bandaríkjamenn setja úrslitakosti, þá má næstum því ganga út frá því sem vísu að þessi breyting verði til batnaðar.
=== === === ===
Enn á Mbl.is: Breska ríkisstjórnin lofar að bæta tjónið af atlögu breskra hermanna á lögreglustöð í Basra nýverið, þegar þeir ruddust inn á skriðdreka til að frelsa nokkra breska hermenn sem höfðu verið handteknir, óeinkennisklæddir. Það fylgir vitanlega ekki sögunni fyrir hvað þessir heiðursmenn voru handteknir. Þeir voru nefnilega að koma fyrir sprengjum, ætluðum heimamönnum, sem áttu að virðast vera frá súnnítum komnar. Lesið nánar um málið og samhengi þess hérna.
=== === === ===
Sjónvarp skemmir heilann í börnum og veldur margvíslegu tjóni á þeim og fullorðnum, m.a. tengt Alzheimer, ótímabærum kynþroska o.fl. skv. nýlegri rannrókn. Félagi Björn Darri fær þakkir fyrir ábendinguna.

No comments:

Post a Comment