Friday, October 14, 2005

Gyanendra einvaldur í Nepal boðar kosningar árið 2007. Þingflokkarnir sjö hafa sagt að kosningar undir beinni stjórn konungsins séu ómarktækar, sem er auðvitað alveg rétt. Ef það er planið hjá kóngsa, þá getur ástæðan ekki verið önnur en að hann vilji bæta samskiptin við Indland, Bretland og Bandaríkin. Kóngsi segir: "Meaningful multiparty democracy is possible only by re-energising representative institutions through free and fair elections" - eins og kosningar geti verið "frjálsar" þegar hans hávelborinheitum náðarsamlegast þóknast að halda þær! Nei, þetta er bara vitleysa. Ef þessar kosningar verða haldnar verða þær ekki annað en glamur og ryk sem slegið í augu áhorfenda. Nepal vantar vissulega lýðræði - en lýðræði verður ekki fengið með bænaskjölum til einvaldskonunga. Það næst með átökum, þegar almenningur rís upp og spyrnir hásætinu um koll og kóngsdruslunni með, í krafti samstöðu sinnar. Sjöflokkarnir ættu að mynda bandalag við maóista og veita stríði fólksins pólitískan stuðning. Þegar er búið að ganga milli bols og höfuðs á einveldinu er hægt að stofna lýðveldi, og maóistar hafa þegar kvaðst vera reiðubúnir að taka þátt í stofnunum lýðveldisins - jafnvel setjast á þing - ef leikreglurnar verða sanngjarnar. Vonandi að það gerist sem fyrst.
=== === === ===
Það styttist í allsherjarverkfall gegn Íraksstríðinu sem Troops Out-bandalagið hefur boðað í Bandaríkjunnum 1. desember, til minningar um dirfsku Rósu Parks, svörtu konunnar sem neitaði að eftirláta sæti sitt í strætó hvítum karli þann 1. desember 1955 - og hratt af stað Civil Rights Movement. Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi þykir mér þetta allsherjarverkfall vera furðu djarft útspil hjá aðstandendum. Eftir hrikalega vel heppnuð mótmæli gegn Íraksstríðinu er vissulega spurning hvað næst. Þetta er svar þeirra við spurningunni. Ef þetta gengur vel og margir leggja niður vinnu, þá er sigurinn mikill og pólitískur höfuðstóll hreyfingarinnar vex til muna, og flýtir fyrir næsta skrefi eftir það, sem yrði líklega að byggja upp fjöldahreyfingu á landsvísu. Ég get hins vegar ekki sagt að ég sé of bjartsýnn. Ég er frekar varkár að eðlisfari þegar svona nokkuð er annars vegar, og efast um að ég mundi hætta á þetta. En þau ætla að gera það. Ef þetta misheppnast mun það ekki líta vel út og mikil fyrirhöfn og mikill tími fara fyrir lítið. En á hinn bóginn - ef þetta heppnast, þá er baráttan gegn Íraksstríðinu komin á nýtt stig. Stig beinna efnahagslegra aðgerða. Það er vissulega skref fram á við - og vonandi að það sé ekki verið að reyna að stíga það of snemma eða gleypa stærri bita en menn geta kyngt...
=== === === ===
Meistari John Pilger skrifar um fjölmiðla sem bregðast, um Írak og fyrri heimsstyrjöldina og Suharto grimmdarsegg í Indónesíu, einn hroðalegasta fjöldamorðingja sögunnar, sem aldrei er talað um vegna þess að hann var með réttum mönnum í liði, átti rétta vini. Og hvað eru 500.000-1.000.000 mannslíf milli vina?
=== === === ===
Nigel Morris skrifar um ástandið í Írak og vitnar meðal annars í Robert Fisk. Hvílíkur skrípaleikur þær eru, þessar kosningar sem eiga að vera á morgun, um fyrirhygaða stjórnarskrá. Hann bendir m.a. á að íraskar fjölskyldur eru með hugann við að fæða sig og klæða, frekar en að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað ættu menn líka að vera að ræða? Hverjum dettur í hug að útkoma þessarar atkvæðagreiðslu muni skila því að vilji írösku þjóðarinnar fái að ráða? Góðir menn hafa bent á að kosningar breyta (yfirleitt) engu - þá væru þær ólöglegar, að sjálfsögðu! Velviljaðir borgarar Íraks eiga sjálfsagt eftir að gefa þessu séns og mæta á kjörstað af tómri óskhyggju, en quislingastjórnin sem Bandaríkjastjórn nota sem lítt dulda leppa sína er ófær um að fullnægja vilja Íraka, því þá yrði hún að vísa Bandaríkjaher úr landi - og þar með slá allar stoðirnar undan sínum eigin völdum. Sénsinn að það gerist. Leppar Bandaríkjamanna í Írak eru hvorki meira né minna en landráðamenn.
=== === === ===
"The consequences of the calculated hysteria of a new anti-Semitism haven’t been just to immunize Israel from legitimate criticism. Its overarching purpose, like that of the “war against terrorism,” has been to deflect criticism of an unprecedented assault on international law." - Norman Finkelstein
=== === === ===
Meira að segja Zbigniew Brzezinsky gagnrýnir Bush og stefnu hans. Þá er nú fokið í flest skjól, held ég.

No comments:

Post a Comment