Monday, October 24, 2005

Kvennafrí og stéttabarátta

Kvennafrídagurinn er hið besta mál - um að gera að vekja athygli á kerfisbundnum launamun kynjanna. Mér finnst athyglisvert hvað fyrirtæki, ráðuneyti og fleiri úr röðum Valdsins hafa sýnt málstaðnum stuðning, sbr. blaðaauglýsingar dagsins. Ég veit ekki hvort maður ætti að vera ánægður eða tortrygginn. Ef Valdið styður baráttuna, er hún þá barátta? Eða réttara sagt, þarna birtist stuðningur í orði, en baráttumálið er samt ekki í höfn. Æ, þetta er kannski bara besta mál.
Jafnréttisbaráttan er hluti af stéttabaráttunni. Ástæðan fyrir því að konur bera skarðan hlut frá borði er að kapítalistarnir eru næstum allir karlar og arður dreifist í samræmi við það. Af sömu ástæðu er valdastéttin treg til að stuðla að jafnrétti, því þá þyrftu téðir kapítalistar að afsala sér einhverju af forréttindum sínum til útvalinna kvenna. Hver afsalar sér forréttindum ótilneyddur?
Ég tel að jafnréttisbarátta kynjanna slái að vissu leyti ryki í augu okkar. Okkur vantar ekki fleiri kvenkyns kapítalista, okkur vantar jafnrétti milli fólks. Það felur í sér að stéttaskipting heyri sögunni til - hvort sem hún miðar við kynferði, litarhátt eða hreina stéttarstöðu. Það markmið næst ekki með bænaskjölum eða þingsályktunartillögum heldur með því að ganga hreint til verks og afnema stéttaskiptingu með beinum hætti.
=== === === ===
„Ef þeir eru með eitthvað múður, þá lemurðu þá bara. Þeir eru vanir því.“ Hver segir svona annar en ótíndur glæpamaður?

No comments:

Post a Comment