Friday, October 14, 2005

Í kommenti sem Þórður Sveinsson skrifaði við þarsíðustu færslu komu fram þónokkrir gildir punktar sem mér er ljúft og skylt að svara, og geri það í þessari sérstöku færslu.

Þórður skrifar að þá „sem nú fara með völdin í Írak [sé] samt ekki hægt að afgreiða sem landráðamenn“ eins og ég geri.
Mitt svar: Þeir sem fara með völdin í Írak er Bandaríkjastjórn. Þeir sem leggja Bandaríkjastjórn lið við að ljá hernáminu blæju lagalegrar réttlætingar eru að mínu mati alveg tvímælalaust landráðamenn. Í því sambandi mætti hafa hliðsjón af íslenskum lögum um landráð, í X. kafla almennra hegningarlaga, greinar 86-89. Mér sýnist ekki vera nein tvímæli, að quislingastjórnin hefur gerst sek „um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða [íraska] ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð“, „að skerða sjálfsákvörðunarrétt [íraska] ríkisins“, „að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við [íraska] ríkið eða hlutist til um málefni þess“ auk þess sem quislingastjórnin „veitir fjandmönnum [íraska] ríkisins liðsinni í orði eða verki eða veikir viðnámsþrótt [íraska] ríkisins“.
Nú viðurkenni ég að það er umdeilanlegt að eitthvað sé til sem heitir „íraska ríkið“ í dag - það má annars vegar halda því fram að svo sé ekki, þar sem sá aðili sem krefst einokunar á valdbeitingu innan landamæra Íraks sé utanaðkomandi afl og leppar þess og því sé einkunnin „íraska“ óviðeigandi. Á hinn bóginn má segja að þetta ríki sé fullt eins „íraskt“ og ríkisstjórnin á undan (eða, réttara sagt, að stjórnin á undan hafi ekkert frekar verðskuldað þessa einkunn) - enda er íraska þjóðin fjarri því að vera einsleitur hópur. Hún er klofin í stéttir og ríkisvaldið er, sem kunnugt er, framkvæmdanefnd valdastéttarinnar. Þannig er það kannski ekki aðalatriði hvort ríkisstjórn er „innlend“ eða ekki - hlutverk hennar er það sama eftir sem áður, að halda undirstéttunum niðri með valdbeitingu.

Þórður bendir á að „[þ]ó svo að misjafn sé sauður í mörgu fé þá vinna örugglega margir ráðherranna í ríkisstjórn landsins störf sín af heilindum.“
Mitt svar: Það kann vel að vera að þeir trúi því að þeir séu að gera gott. Það breytir því ekki að þeir vinna þjóð sinni tjón með gjörðum sínum, og ég sé ekki að góð trú eða góður ásetningur breyti afleiðingum gjörðanna. Það breytir því vissulega, að ekki sé um tóm hrakmenni að ræða, og yrði sjálfsagt tekið til greina af sanngjörnum dómstól - en olíulindunum er jafnmikið stolið og fólk er jafnmikið drepið fyrir því.

Þórður skrifar: „Varla eru þeir margir sem vilja sjá þá sem leiða hina vopnuðu baráttu gegn hernámsliðinu á valdastólum. ... Það að innrásin í Írak hafi verið röng réttlætir ekkert þeirra baráttu; hún er glæpsamleg og veldur ómældum þjáningum.
Mitt svar: Að mínu mati verðskuldar þjóðfrelsisstríð Íraka skilyrðislausan stuðning. Innan írösku andspyrnunnar eru vissulega menn sem ég mundi ekki treysta fyrir völdum í ríkinu. Í vestrænum fjölmiðlum er látið líta út fyrir að íraska andspyrnan samanstandi almennt af dýrvitlausum trúarnötturum. Ég legg ekki trúnað á það. Það þarf ekki að vera dýrvitlaus trúarnöttari til að taka upp vopn til varnar föðurlandi sínu, eins og dæmin sanna. Það er ekki spurning að stór hluti írösku andspyrnunnar berst gegn hernámsliðinu vegna særðrar réttlætiskenndar og þjóðarstolts, og við það er ekkert að athuga. Samviskuspurning: Hver mundi ekki gera það sama í þeirra sporum?
Að svo miklu leyti sem baráttan er (a) gegn hernámsliði heimsvaldasinna og leppum þeirra og (b) fyrir írösku þjóðfrelsi og fullveldi, þá á hún minn stuðning skilyrðislausan. Segjum að þeir vinni sigur. Ef íslamskt klerkaveldi yrði þá á dagskrá mundi ég andæfa því af fullum krafti líka. Barátta gegn hernámi er eitt, barátta fyrir klerkaveldi annað - sú síðarnefnda þætti mér afleit niðurstaða. Hver sem niðurstaðan verður, ætti hún samt að vera fundin af Írökum sjálfum. En gætum að: Nú þegar er vísir að íslömsku ríki í burðarliðnum. Sharía-lögin verða að miklum hluta stofninn í írösku lögbókinni, ef leppstjórnin fær sínu framgengt, enda eiga klerkarnir þar margan hauk í horni. Geymir ekki stjórnarskráin tilvonandi ákvæði um að lög megi ekki brjóta í bága við sharía? Leiðir það ekki af sér að mannréttindi t.d. kvenna og samkynhneigðra verði fyrir borð borin? Verða shí'íta-klerkar eins og al-Sistani ekki voldugustu menn ríkisins? Ég mundi frekar vilja búa við al-Sistani en Mullah Omar - en það er ekki þar með sagt að Sistani væri æskilegur kostur. Þetta er hálfgert false dilemma: Við megum ekki gleyma þeim kosti af hafna báðum og að Írak geti orðið sekúlar ríki aftur.

Þórður ritar: „gildi þessara stjórnarskrárkosninga er umdeilanlegt, ekki þó af sömu ástæðu og þú nefnir; það að fólk sé fátækt og að lífsbaráttan sé erfið á aldrei að nota sem ástæðu fyrir ólýðræðislegum stjórnunarháttum.“
Mitt svar: Ég er hjartanlega sammála. En í Írak helst þetta einmitt í hendur: Hernámsyfirvöld eru í hæsta máta ólýðræðisleg, og þessi stjórnarskrá á ekki eftir að breyta neinu um það. Ég tel réttara að sniðganga kosningar eins og þessar, þar sem fullvíst er að sama hver niðurstaðan verður, þá verða hagsmunir Bandaríkjastjórnar ofar hagsmunum írösku þjóðarinnar. Það er ekkert lýðræðislegt við ólýðræðislegar kosningar!

Þórður segir að menn eigi ekki að segja sem svo: „Fólk hefur engan tíma til að setja sig inn í málin og þess vegna skulum við bara ákveða þetta sjálfir og ekkert vera að láta kjósa um þetta.
Mitt svar: Þegar öllu er á botninn hvolft verður Írak samt sem áður stjórnað frá sendiráði Bandaríkjanna í Baghdad. Fólki er boðið að kjósa um trivial málefni. „Tafarlaus brottflutningur hernámsliðsins og uppbygging sekúlar, lýðræðislegs alþýðulýðveldis“ er ekki valkostur á kjörseðlinum, sem er skiljanlegt. Þeir sem stjórna ferðinni vilja ekki að það sé á dagskrá.

Í stuttu máli sagt: Bandaríkjastjórn fer sínu fram í krafti hervalds og yfirburða. Hún reynir að slá ryki í augu írösku þjóðarinnar með glamri um „lýðræði“ sem ekkert er í raun, og fær sér til stuðnings leiðtoga úr röðum Íraka sjálfra. Sá sem liðsinnir erlendu hernámsliði við að kúga sína eigin þjóð er samkvæmt skilgreiningu landráðamaður, eftir því sem ég kemst næst. Þar af leiðir að quislingastjórnin í Írak er sek um landráð.

Eina bjargráðið sem ég eygi í stöðunni hef ég nefnt áður og ég nefni það hér með aftur: Írakar þyrftu að koma sér upp stéttvísum, sterkum og þróttmiklum verkalýðsflokki með skýr markmið og eindregna afstöðu, sem mundi fylkja Írökum úr hinum vinnandi stéttum í eina sveit, sama úr hvaða trúar-eþníska hópi þeir kæmi, á grundvelli stéttarstöðu, og sparka hernámsliðinu öfugu út í Persaflóa þaðan sem það kom, og svipta innlenda arðræningja, pokapresta og bronsaldarhöfðingja völdum í leiðinni. Við tæki lýðræðislegt lýðveldi þar sem allt kapp yrði lagt á uppbyggingu innviða og efnahagslífs og afrakstrinum yrði varið í þarfir fólks, ekki fjármagns. Hvernig þessi fjarlægi draumur rætist veit ég ekki - en ég sé ekki að aðrir kostir séu í stöðunni.

Ég vil í leiðinni lýsa ánægju með orðalag Ríkisútvarpsins, sem kallar stjórnina „hina veikburða leppstjórn Bandaríkjamanna“ - þar er henni nefnilega rétt lýst.

No comments:

Post a Comment