Thursday, September 1, 2005

Che Guevara: sálsjúkur illvirki, ótíndur þrjótur, miskunnarlaus böðull og þaðan af verra


Um daginn (24. ágúst) skrifaði Egill Helgason um Che Guevara og lagði m.a. út af orðum Ólafs Guðnasonar, sem „segir að Che hafi verið pyntingameistari og böðull. Sem er alveg rétt.“ „[Che] var ... óþjóðalýður.“ Sama hljóð heyrist úr öðrum strokkum stjórnmála („Svalir siðleysingjar“ og „Che Guevara, tískufyrirbærið og morðinginn“ til dæmis).
Mér þykir þetta athyglisvert. Mér finnst athyglisvert hvernig hlutirnir eru teknir úr samhengi. Ef borgarastríð eða bylting eru í gangi, þá gilda nefnilega önnur lögmál en á friðartímum. Og þegar annars vegar eru illskeyttir harðstjórar eða leppar heimsvaldasinna, er þá nokkuð eðlilegra en að leggja allt í sölurnar til að losna við þá?
Viðkvæðið er alltaf það sama. Che var morðingi, nauðgari, pyndingameistari, hitt og þetta. Ætli hann hafi ekki verið mannæta líka? Ég veit ekki til þess að hann hafi nauðgað einum né neinum, og miðað við annað sem ég veit um hann þykir mér það næsta ólíklegt. Ég hef heldur ekki heyrt að hann hafi pyndað fólk, og ekki hef ég heimildir fyrir því að hann hafi drepið fólk að gamni sínu. En það er víst aukaatriði. Kommúnistar eru vondir, svo það er allt í lagi að skreyta sögurnar af þeim. Fyrst Che drap menn, þá hefur hann örugglega verið nauðgari líka, ekki satt?
Þetta er dæmigert fyrir það, hvernig mettir Vesturlandabúar á hraðskreiðum bílum telja sig þess umkomna að vera fullir vandlætingar á því hvernig fólk hagar sér við harðneskjulegar aðstæður. Er það alltaf glæpsamlegt að taka sér riffil í hönd og fara og berjast við stjórnarherinn? Hvað ef það eru ekki hugsjónir heldur aðþrenging og örvænting sem ráða för? Hvað ef það er réttlætiskennd sem hefur verið misboðið vegna framferðis stjórnvalda? Hvað ef það er ekkert lýðræði og engin önnnur leið fær til að breyta stjórnarfarinu, heldur en vopnuð bylting? Það búa ekki allir í Svíþjóð.
Við getum sett okkur á háan siðferðissess og sagt að hitt og þetta sé glæpur eða hryðjuverk. Sagt að hinir og þessir séu þrjótar og svíðingar, reyndar sagt hvaðeina um þá -- því hver fer að verja þrjóta? Það er hægt að kalla Che nauðgara -- fyrst hann var manndrápari, leiðir þá ekki hitt af sjálfu sér? Er nokkuð að því að skrökva sökum upp á menn sem eru sekir hvort sem er?
Það er stundum minnst á sögu af því þegar Che drap einhvern bónda. Var það verri verknaður en þegar Che var drepinn sjálfur? Hverjar voru aðstæðurnar? Ég spyr.
Í alvöru talað, hversu trúverðuga mynd fær maður af einum manni með því að hlusta aðeins á óvini hans?
Vinstriróttæklingum er oft borið á brýn að úthúða hægrisinnuðum stríðsglæpamönnum en draga fjöður yfir stríðsglæpi vinstrisinnaðra stríðsglæpamanna. Það kann vel að vera rétt. En er það ekki hræsni þegar sömu hægrimennirnir og segja þetta gera nákvæmlega það sama: Úthúða mönnum eins og Che eða öðrum kommum, meðan menn á borð við Suharto eða Mobutu eru þægilega fjarlægir? Gleymum heldur ekki Hussein konungi, Fahd konungi, Botha, Pinocet og óteljandi öðrum hröppum.
Mér finnst lítið koma til persónudýrkunar. Ekki á ég bol með mynd af Che, og langar ekkert sérstaklega mikið í svoleiðis bol. (Á reyndar bol með Lenín, en geng sjaldan í honum!) Ef ég yrði að velja, tæki ég samt Che-bol fram yfir Thatcher-bol - enídei! En persónudýrkun, nei takk. Það er sjálfsagt að taka sér til fyrirmyndar það sem aðrir hafa gert rétt eða vel, en persónudýrkun: Nei takk. Ég sá um daginn í glugga á bolabúð bol með Che og undir stóð Che Guemerkjavara ... það fannst mér fyndið.
Að lokum ein spurning: Er Che Guevara verri fyrirmynd heldur en Rambó?

No comments:

Post a Comment