Tuesday, September 20, 2005

Mótmæli miðvikudaginn 21. september


Á Hótel Nordica stendur yfir ráðstefna um rafskautaframleiðslu fyrir álver, en til stendur að reisa slíka verksmiðju í Hvalfirði og á hún að þjóna öllum álverum landsins ef mér skjátlast ekki. Verksmiðja þessi mun menga gífurlega - hún mun spúa eitruðum reyk á við 172.000 bíla (já, hundraðsjötíu og tvö ÞÚSUND). Þessi mengun mun taka sinn toll af Faxaflóa, sem eftir þetta mun verða eitt mengaðasta svæði Norður-Evrópu.

Ísland, best geymda leyndarmál áliðnaðarins. Látum það vera það áfram. Hver vill hafa reykspúandi monster í ósnortna landinu sínu og drekkja því í eðju til að fullnægja fýsnum monstersins? Fýsnum erlendra auð-belgja?

Enn og aftur blása álhórurnar, ráðamenn Íslands, í partí þar sem ístrukeppir brugga fósturjörð okkar launráð á daginn og svalla á kvöldin, hlæjandi með sjálfum sér yfir rányrkjunni sem þeir ætla að maka krókinn á - á kostnað fjallkonunnar, úr hverrar skauti við erum upprunnin, í hverrar skaut við munum um síðir aftur hverfa.

Með öðrum orðum: Vondir útlendingar eru hér til að rústa landinu okkar og loftinu sem við öndum að okkur - og, ef út í það er farið, hnettinum sem við búum á, við stóra fjölskyldan. Hér með er skorað á alla sem vettlingi geta valdið:

Mætið í mótmælin á miðvikudag 21. september, klukkan 8:00 um morguninn við Hótel Nordica við Suðurlandsbraut, þar sem þessi óforskammaða ráðstefna fer fram.

- Klukkan 18:00 um kvöldið verða önnur mótmæli við Ráðhús Reykjavíkur, þar sem er móttaka um kvöldið.

Á bæði mótmælin er fólk hvatt til að taka með sér skilti, borða eða annað til að gefa afstöðu sína til kynna. Enn fremur er fólk hvatt til að taka með sér eitthvað sem framkallar hávaða: Þokulúðra, flautur, trommur, pottlok, lúðra ... notið hugmyndaflugið!

No comments:

Post a Comment