Monday, September 12, 2005

Ég hef hingað til ekki viljað taka afstöðu með einum, gegn öðrum, í klofningnum milli kommúnista og anarkista og ég ætla ekki að fara að byrja á því núna. Ég á ýmislegt sameiginlegt með báðum, en heldur meira með þeim fyrrnefndu hygg ég þó. Mér gremst að sjá fólk sem á að heita sömu megin víglínunnar eyða púðri í að rakka hvert annað niður. Það sem mér gremst þó ennþá meira er að þeir sem gera það hafa oft nokkuð til síns máls! Ég held að fólk hefði gott af því að anda með nefinu og sjá hvaða gagn er hægt að hafa af samstarfi. Það er þörf á umræðu, rökræðu, sameiginlegu starfi. Markmiðið er það sama. Það hlýtur að mega finna strategíu og taktík sem er það skynsamleg að fólk sem á annað borð vill sjá byltingarkenndar breytingar á samfélaginu geti lagt nafn sitt þar við. En í staðinn er hangið í gömlum tuggum og uppnefnum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
V for Vendetta heitir grafísk skáldsaga sem ég var að ljúka við, að ábendingu heiðursmannsins Dodda. Bretland eftir þriðju heimsstyrjöldina ... fasistastjórn ræður ríkjum ... anarkisti sem kallar sig V og er innblásinn af Guy Fawkes hrærir upp í ástandinu. Góð saga, alveg hreint stórgóð saga.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Úr því að ég hef vísað á Dodda, þá er best að ég geri það aftur. Hann skrifar líka um þá merkilegu bók Skákað í skjóli Hitlers eftir meistara Jóhannes Björn. Sú fjallar um geðlækningar - einkum skuggahliðar þeirra og skuggalega fortíð. Bókin er aðgengileg á netinu, svo þeir sem vilja geta farið nú þegar og lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar yfirgefa Gaza og Palestínumenn fagna.

No comments:

Post a Comment