Tuesday, September 27, 2005

Aðeins um nokkra vonda kommúnistaleiðtoga, einn meira en aðra


Best að láta dæluna ganga...
Öll þessi umræða sem maður sér annað slagið skjóta upp kollinum, öll þessi umræða um kapítalisma og kommúnisma, anarkisma, Stalín, Trotskí, Maó, Lenín, Marx. Öll þessi umræða fer meira og minna fram með einhverju skotgrafahugarfari. Það er sjaldan að maður sér málflutning sem maður finnur að er hlutlægur, sanngjarn. Það er eins og það komist ekki annað að hjá hægrimönnum en að Maó og Stalín hafi umfram allt verið vondir menn og í því ljósi beri að skoða sögu Sovétríkjanna og Kína, og að Lenín hafi verið persónulega ábyrgur fyrir flestum dauðsföllum sem urðu í Sovétríkjunum 1917-1924. Auðvitað, hann var leiðtoginn. Það hlýtur að þýða að hann hafi haft fulla stjórn á öllu sem gerðist og því verið persónulega ábyrgur fyrir öllu.

Che Guevara, "svali morðinginn". Umfjöllun hægrimanna um hann er full af yfirdrepssakp og hræsni. Það er umfjöllun vinstrimanna oft líka. Spánska borgarastríðið. Stalín bar ábyrgð á því að vondu kommarnir snerust gegn góðu anarkistunum. Var það svo einfalt? Ég er ekki sannfærður. Griðasáttmáli Hitlers og Stalíns, rýtingsstunga Stalíns í bakið á góðu Vesturveldunum. Rugl. Griðasáttmálinn var örþrifaráð aðþrengdra manna, ráð til að kaupa Sovétmönnum frest og til að draga Vesturveldin með inn í stríðið, sem hlaut óhjákvæmilega að skella á. Planið hjá Vesturveldunum var að nota Þýskaland eins og boxhanska til að lúskra á Sovétríkjunum, Stalín tókst að snúa boxhanskanum til föðurhúsanna. Hvað sem má segja um hann að öðru leyti, þá var þetta diplómatíska manjúver meistarastykki.

Millistríðsárin í Sovétríkjunum. Hroðalegar mannfórnir. Hvers vegna? Vegna þess að Stalín var vondur? Bull. Þær eiga sér jarðneskar skýringar.

(1) Iðnvæðing var nauðsynleg fyrir Sovétríkin - svo hratt sem auðið var. Það kom líka á daginn þegar Þýskaland réðst á þau. Hvernig hefði stríðið farið ef iðnvæðingin hefði ekki verið komin svona langt? Þjóðverjar hefðu valtað yfir Sovétmenn. Hvað kostaði iðnvæðing Vesturlanda miklar mannfórnir? Ekki minni, það get ég leyft mér að fullyrða. Þær mannfórnir teygðust bara yfir tíu eða tuttugu sinnum lengri tíma og fóru að miklu leyti fram í nýlendunum. Rússland hefur tvíeðli heimalandsins og nýlendunnar og það iðnvæddist sirka tífalt hraðar en flest Vesturveldin. Auðvitað urðu mannfórnirnar hræðilegar - en við hverju var hægt að búast?

(2) Ofsóknir og hreinsanir. Stalín átti nóg af óvinum, ég held að engum detti annað í hug. Hvað átti hann að gera, bíða eftir að hann yrði myrtur sjálfur? Hann gat auðvitað ekki annað en losað sig við þá sem hann gat ekki treyst. Blóðugt já, en skilaði þeim árangri að hann hélt velli sjálfur. Frá macchiavellísku sjónarmiði stóð hann sig eiginlega bara vel.

No comments:

Post a Comment