Thursday, September 15, 2005

George Galloway er á ferðalagi um Bandaríkin, þar sem hann talar gegn stríði og heimsvaldastefnu. Hér getur að líta ferðadagabók hans sem er skrifuð meira og minna jafnóðum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jose-Maria Sison skrifar gegn heimsvaldastefnu og skorar á fólk að flykkjast á mótmælin 24. september. Því miður verða engin mótmæli hér á landi þann dag, svo mér sé kunnugt. Þess má geta að Sison er formaður maóistaflokks Filippseyja, sem staðið hefur í skæruhernaði í mörg, mörg ár, og hann er í sjálfskipaðri útlegð í Hollandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal halda mótmælaaðgerðir áfram af miklum móði. Í gær handtók lögreglan 529 manns, sem höfðu verið á mótmælum. Fólkið hafði fordæmt gerræði konungsins og krafist lýðræðis. Það er vissara að lemja svona ólátabelgi með kylfum til að kenna þeim lexíu, ekki satt? Sjá líka frétt á Al Jazeera.
Í grein á Nepal News er farið yfir nýja viðtalið við Prachanda formann, og dregnir fram nokkrir áhugaveðustu punktarnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
...og "fellibylurinn Bolton" ógnar fátæklingum víðs vegar um jörðina.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í tilefni þess að Ísraelsher hefur yfirgefið Gaza (a.m.k. í bili) er vert að rifja upp samhengið: Af rúmlega 150 landtökubyggðum á herteknu svæðunum hafa aðeins 25 verið lagðar niður. Í þeim bjuggu alls 8.475 landtökumenn, af alls 436.000 landtökumönnum á herteknu svæðunum. Með öðrum orðum hafa aðeins tæplega 2% ísraelskra landtökumanna á palestínsku landi verið fluttir brott. Samtímis hafa á undanförnu ári 12.800 landtökumenn sest að á Vesturbakkanum, 50% fleiri en voru fluttir frá Gaza núna. Samtímis þessu heldur bygging aðskilnaðarmúrsins áfram, en hann er meira og minna allur á palestínsku landi (ekki á landamærum Ísraels og Vesturbakkans) og innlimar mjög stórar skákir (alls 46%) af Vesturbakkanum inn í Ísrael, um leið og hann skiptir Vesturbakkanum í nokkrar aðskildar einingar þar sem samgangur á milli er alveg háður geðþótta Ísraela og erfiður sem því nemur. Hæstiréttur Ísraels var að úrskurða að múrinn væri löglegur. Það segir meira um Hæstarétt Ísraels en múrinn.
Á Gaza var ekki verið að snúa dæminu við. Það sem þar fór fram var að Ísraelar hörfuðu í taktísku skyni, til að bæta sína eigin vígstöðu. Útþenslustefna þeirra er hvergi nærri brotin á bak aftur, en reyndar var þetta dýrmætt fordæmi: Nú er sýnt að það er hægt að leggja niður landtökubyggðir gegn vilja glæpamannanna sem sitja þar, og landtökumennirnir hafa ekki það gríðarlega fjöldafylgi sem þeir montuðu sig af. Auk þess sýnir þetta að vopnuð andspyrna Palestínumanna ber árangur, semsé þann að hrekja Ísraela til baka með því að gera hersetuna of erfiða. Án vopnaðrar andspyrnu hefði þetta aldrei gerst.
Þegar friðsamlegar breytingar eru gerðar ómögulegar með rasisma, aðskilnaði, ofbeldi og ójöfnuði, þá neyðast þeir örvæntingarfullu til að grípa til annarra aðferða.

No comments:

Post a Comment