Monday, September 5, 2005

Merkisfréttir frá Nepal: Skv. yfirlýsingu sem kom á laugardaginn frá Prachanda, formanni maóista, lýsa maóistar yfir einhliða þriggja mánaða vopnahléi.* Á þeim tíma munu þeir hafa svigrúm til að treysta bandalag sitt við þingræðislegu sjöflokkana gegn kónginum. Með öðrum orðum, ef fer sem horfir, þá þýðir þetta stórt skref framávið fyrir lýðræðisbyltinguna í Nepal. Maóistar leggja ekki niður vopn, og áskilja sér rétt til að svara árásum og verjast ef á þá er ráðist. Þetta er sniðugt múv hjá þeim, enda bindur það hendur hersins, sem nú getur ekki haldið áfram árásum á maóista án þess að kalla yfir sig fordæmingar fyrir mannréttindabrot.*
Á útifundi var Koirala, frv. forsætisráðherra, misþyrmt af öryggissveitum* svo hann þurfti að leggjast á spítala. Hann er 84 ára gamall. Það er víðar en á Íslandi sem gamalmennum er misþyrmt af mönnunum sem þykjast vera að vernda okkur!
Reyndar er fleira að frétta af maóistum. Nepalskir maóistar og indverskir naxalíta-maóistar hafa myndað með sér bandalag gegn heimsvaldastefnu og afturhaldi, með sósíalisma og kommúnisma í Nepal og Indlandi og heiminum öllum sem markmið sitt.* Svo segja Ganapathy aðalritari naxalíta og Prachanda formaður nepalskra maóista. Þetta hlýtur að styrkja stríð fólksins í Nepal og Indlandi.
Um daginn greindu fréttir (ekki íslenskar) frá því að í Nepal hefðu maóistar nauðgað svo mörgum sem 25 konum af stétt dalíta. Nú hefur komið á daginn að vestrænar fréttastofur létu gabbast af miklum ýkjum. Í alvörunni var einni konu nauðgað, af manni sem sagðist vera maóisti.* Ég veit ekkert um það hvort hann var maóisti í alvörunni eða ekki, en það er greinilega ekki fyrir neðan virðingu sumra að blása fréttir eins og þessa upp til þess að láta maóista líta illa út.
Það er eins og sumir trúi hverju sem er upp á kommúnista.
Mér finnst það vera til marks um að ekki sé allt með felldu, þegar menn fara að ljúga fyrir málstaðinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vona að Halldór Jónsson sé að grínast með greininni „Stundum er ég smeykur“ á blaðsíðu 22 í Mogganum í dag. Ég er hræddur um að annars fái Styrmir Gunnarsson ekki plús í kladdann. Aumkvunarverðum rasistum er enginn greiði gerður með því að ljá þeim ræðupall til að gera sig að fífli fyrir alþjóð.

No comments:

Post a Comment