Friday, September 30, 2005

Styrktartónleikar Ungrótar eru í kvöld á Kaffi Hljómalind, Laugavegi 21. Þar verður Kommadistró Íslands - að sjálfsögðu. Eins og fram hefur komið hafa nokkrar bækur selst upp, en nóg er eftir af úrvals kommabókmenntum, og úrvalið mun aukast talsvert fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er alltaf að renna betur og betur upp fyrir mér að pólitík snýst ekki um rök heldur hagsmuni. Með sterkum og rökföstum málflutningi má vissulega koma miklu til leiðar - en það er ekki málflutningurinn sem slíkur sem kemur neinu til leiðar, heldur viðbrögðin við honum. Ef ég gæti talað til almennings, sett málin í samhengi og tengt þau við fólk sjálft með einhverri innblásinni eldmessu sem hitti í mark á réttu augnabliki, þá gæti mundi það standa upp og koma sínu fram og draumar fallega þenkjandi fólks mundu rætast - ekki vegna málflutningsins hefldur vegna valdsins sem felst í því að fólk segi "hingað og ekki lengra" eða "við látum ekki bjóða okkur þetta" - og sé reiðubúið að fylgja þeirri afstöðu eftir.
Pólitík snýst ekki um rök. Það er engin spurning að rökin hníga gegn Íraksstríði, Afghanistanstríði, kvótakerfinu, stóriðjustefnu stjórnvalda, kapítalisma - og svo mætti lengi telja. En það er ekki það sem skiptir máli í pólitík. Þeir sem hafa valdið sín megin njóta þeirra forréttinda að þurfa ekki að hlusta á rök, því þeir hafa valdið. Til þess er valdið, að þurfa ekki að hlusta á rök. Til þess er valdið, að framfylgja hagsmunum sínum af skeytingarleysi við mótbárur annarra, óháð því hvort þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki.
Rök geta virkað til þess að auðmýkja valdið og grafa þannig undan því, ef rökin eru sterk og vel sett fram og nógu margir heyra þau og skilja og taka til sín. En enn eru það ekki rökin sem ráða úrslitum, heldur valdið, í því tilfelli vald fólksins, vald almenningsálitsins, valdið sem felst í því að geta lagt niður vinnu, lamið stjórnmálamenn eða embættismenn, eða einfaldlega hlegið að þeim. En rökin ein og sér hrökkva skammt ef þeim er teflt gegn valdinu án þess að leikfléttan sé hugsuð út í þaula.
Borgaraleg pólitík gengur ekki út á rök. Ríkisvaldið er framkvæmdanefnd auðvaldsins, stjórnmálamenn eru pólitískir millistjórnendur þeirra sem ráða ferðinni. Stjórnmálamenn svara til herra sinna, auðvaldsins. Auðvaldið er hafið yfir einstaklinga og tekur ekki tillit til þeirra. Það er monster sem fer sínu fram samkvæmt sínum eigin lögmálum, í logandi leit að eina takmarki sínu, gróða - sem aftur kemur hvergi að nema úr höndum vinnandi fólks.
Vinna er framleiðsla, sköpun, hún er uppspretta auðs - og valds. Svo lengi sem menn vinna í fjötrum reglugerða, skatta, arðráns, einkaeignarréttar, okurs og skulda, svo lengi næra þeir valdið með vinnu sinni, svo lengi þrífst valdið og heldur áfram að koma fram vilja sínum af sama skeytingarleysinu. Valdi verður ekki svarað nema með valdi, and-valdi. Valdinu sem felst í samtakamætti vinnandi fólks. Valdinu sem felst í því að kenna sameiginlegs máttar síns og skilja hvernig má beita honum til að beina lífsbjörgum frá þrútnandi skrímslinu til þeirra sem þarfnast þeirra og verðskulda þau.
Sanngjarna samninga er ekki hægt að gera ef samningsstaðan er ójöfn, jafnt kvalítatíft sem kvantítatíft. "Deilið og drottnið" gætu verið meðal kjörorða auðvaldsins. "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" gætu verið kjörorð stéttvíss vinnandi fólks. Eða: "Öreigar allra landa, sameinist." Vinnandi fólk hefur engu að týna nema hlekkjunum, en heila veröld að vinna.
Veröldin verður ekki unnin á málfundi eða í sjónvarpskappræðu. Vígvöllurinn er efnahagskerfið, og til að eiga von um sigur þarf vinnandi fólk á öllu sínu að halda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"It's not a matter of what is true that counts but a matter of what is perceived to be true." --Henry Kissinger

No comments:

Post a Comment