Tuesday, September 20, 2005

Yfirlýsing um ál og baráttu gegn stóriðjustefnu


Það er að hefjast stærðarinnar ráðstefna um álsteypu í dag á Hótel Nordica. „Ísland - best varðveitta leyndarmál áliðnaðarins“ hrín í valdamönnum sem gefa skít í umhverfismál. (Að hugsa sér að „umhverfisverndarsinni“ skuli vera skammaryrði í huga sumra.) Alla vega, ef Ísland er best varðveitta leyndarmál áliðnaðarins, þá má það gjarnan vera það áfram mín vegna. Stórkostlegt umhverfisrask, loftmengun og pólitískur yfirgangur eiga þar hlut að máli. Einnig að hlaðið sé undir erlent auðmagn og því veitt inn í okkar litla hagkerfi - og þar með erlendum iðnjöfrum veitt völd í íslensku samfélagi, og var það ekki of lýðræðislegt fyrir. Loks má ekki gleyma því að drjúgur hluti af öllu þessu áli rennur til þarfa hergagnaiðnaðarins. Meira að segja störfin, sem skapast, eru sárafá miðað við útlagðan kostnað. Að landsbyggðin sé á vonarvöl vegna þess að það vantar álver? Kjaftæði. Landsbyggðin er umfram annað á vonarvöl vegna kvótakerfisins.

Ég held að ég hafi fyrir löngu gert grein fyrir afstöðu minni til stóriðjustefnu stjórnvalda. Það er kominn tími til að ég geri grein fyrir afstöðu minni til baráttunnar gegn henni. Hún er þessi: Þeir sem berjast gegn heimskulegri og ruddalegri stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda eiga skilyrðislausan stuðning minn. Með öðrum orðum, ég styð heils hugar baráttuna gegn stóriðjustefnu stjórnvalda og stuðningur minn er ekki skilyrtur af aðferðunum sem samherjar mínir á þessum vígstöðvum velja.
Það er rétt að það komi fram við þetta tækifæri, að ég tel að það fólk eigi virðingu skilda, sem fylgir hugsjónum sínum eftir í verki í stað þess að sitja bara og suða ofan í kaffið eins og við gerum felst. Þeir sem hafa kjark og framtak til að bretta upp ermarnar og taka til hendinni eru holl fyrirmynd. Ef fólk almennt fylgdi því fordæmi, þá væri öðruvísi um að litast.

No comments:

Post a Comment