Thursday, January 21, 2016

Nýlendufranki

Fyrir 10 dögum bloggaði ég og spurði hvort franski frankinn lifði enn, en fréttamaður RÚV hafði þá skrifað eins og hann væri í notkun í Afríki, eða hefði verið það til skamms tíma.

Þetta var víst ekki alls kostar rangt hjá RÚV. Þótt það sé að vísu ekki franski frankinn, þá er CFA-frankinn mikið notaður í mörgum löndum Mið- og Vestur-Afríku. CFA stendur fyrir "Nýlendur Frakka í Afríku". Gjaldmiðillinn var með fast gengi við franska frankann og eftir að evran var tekin upp er hann með fast gengi við hana.

Þúsund CFA-frankar. Mynd: Wikipedia
Gagnrýnendur segja gjaldmiðilinn gera þessi fátæku lönd háð Frökkum, sínum gömlu nýlenduherrum, og gera þeim erfitt fyrir í efnahagsmálum. Málsvarar nútíma nýlendustefnu sjá hins vegar mikla kosti við þetta fyrirkomulag.

Þess má geta að Líbýustjórn undir Muammar Gaddhafi sáluga var með plön um nýjan, sam-afrískan gjaldmiðil sem ætti að leysa CFA-franka af hólmi og minnka þannig ítök Frakka í efnahagsmálum álfunnar. Voru Líbýumenn meðal annars búnir að safna hátt í 200 tonna gullforða til að standa að baki sínum gjaldmiðli. Þessi hættulegu áform voru ein af aðalástæðunum fyrir því að NATÓ hleypti öllu í bál og brand í Líbýu árið 2011, með stuðningi norrænu velferðarstjórnarinnar íslensku.


No comments:

Post a Comment