Tuesday, January 12, 2016

Albaníu-Ásdís og ungbarnadauðinn í Albaníu

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um heilbrigðiskerfið í Albaníu -- væntanlega í sambandi við langveiku börnin -- og þá hafa menn rifjað upp ummæli Albaníu-Ásdísar Höllu Bragadóttur um að heilbrigðiskerfi Albaníu væri "ljósárum á undan" Íslandi í samkeppni í heilbrigðisþjónustu. Egill Helgason benti á að á meðan ungbarnadauði á Íslandi væri 2 af 1000, væri hann 13 af þúsund í Albaníu, -- skuggaleg tala fyrir Evrópuland. Ásdís varðist þessu tali og sagði að ungbarnadauðinn hefði verið þrisvar sinnum hærri 1989.

Það er rétt að halda því til haga hér, að valdatöku kommúnista í Albaníu 1945 fylgdi sannkölluð bylting í heilbrigðismálum -- eins og fylgir reyndar oft valdatöku kommúnista. Á fyrstu átta árum valdatíma þeirra meira þrefaldaðist t.d. fjöldi spítalarúma, úr 1765 í 5500 (sem var samt of lítið) og ungbarnadauðinn lækkaði úr 112,2 af 1000 árið 1945 niður í 99,5 af 1000 árið 1953. Á þessum 8 árum lærði meira en hálf þjóðin að lesa (ólæsi fór úr 85% niður fyrir 30%) og mýrar voru ræstar fram og malaríu þannig útrýmt. Það munar víst um það líka. Og árið 1970 var ungbarnadauðinn kominn niður í 75 af 1000 og niður í 40 af 1000 árið 1989.

Á árunum 1945 til 1990 fjölgaði fólki úr rúmri 1,1 milljón í 3,3 milljónir, vegna þess að fólk lifði miklu lengur. Frá 1990 hefur því fækkað aftur niður í rétt rúmar 3 milljónir.

Þessar tölur tala sínu máli, er það ekki?

No comments:

Post a Comment