Friday, November 18, 2016

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju

Ég tilkynni stoltur að DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju hefur verið samþykkt og skráð hjá yfirvöldum sem lífsskoðunarfélag. Það þýðir að fólk sem aðhyllist díalektíska  efnishyggju á sitt eigið félag, sinn eigin vettvang, til að ræða og stunda lífsskoðun sína og framkvæma sínar eigin athafnir og til að taka við sínum eigin sóknargjöldum og ráðstafa þeim í samræmi við sína eigin lífsskoðun.

Ef þú aðhyllist díalektíska efnishyggju hvet ég þig til að skrá þig strax í félagið. Langeinfaldasta leiðin til þess er að fara á Ísland.is, skrá sig þar inn með kennitölu og íslykli, fara í "trúfélagsskráningu" og velja þar af lista: "Díamat". Það þarf ekki að taka meira en mínútu og þá eruð þið skráð hjá Þjóðskrá í flottasta lífsskoðunarfélagið.

2 comments:

  1. Sæll Vésteinn!

    Til hamingju með DiaMat og skráninguna sem lífsskoðunarfélag. Ég verð að viðurkenna að þarna er margt sem ég er aljgörlega sammála. En ég hnaut við eftirfarandi í Siðferðisgrundvellinum:

    "Við byggjum siðferðisgrundvöll okkar ... á hagsmunum alþýðunnar ... "

    Mér finnst það afskaplega varhugavert að lýsa yfir pólítískum grundvelli siðferðis - og sagan sýnir að slíkt er verulega vafasamt.

    Siðferði er miklu flóknara fyrirbæri en svo og oftar en ekki einkennast siðferðileg álitamál af ósamrýmanlegum kröfum. Með þröngt skilgreindum siðferðislegum grundvelli er allt of auðvelt að brjóta "minni" siðferðisreglur í þágu kennisetningarinnar, og þegar hinar "minni" hafa verið brotnar þá fylgja gjarnan hinar "stærri" í kjölfarið.

    Er siðferðilega réttlætanlegt að ljúga ef lygin er í þágu alþýðunnar? Samkvæmt siðferðisskilgreiningu DiaMat sýnist mér svo vera ... og hvað svo? Þjófnaður, ofbeldi, morð svo maður sé nú ekstra svartsýnn, en sagan sýnir að sú svartsýni á því miður fullan rétt á sér.

    Kær kveðja
    Brynjólfur Þorvarðsson

    ReplyDelete
  2. Sæll Brynjólfur, afsakaðu hvað ég svara þér seint. Fólk brýtur siðferðisreglur á hverjum degi og metur í hverju tilfelli fyrir sig hvað sé réttlætanlegt og hvað ekki. Það er ekkert varhugavert, það er bara eðlilegt. Og mér finnst í hæsta máta eðlilegt að ef maður miðar siðferði við eitthvað, séu það hagsmunir alþýðunnar sem miðað er við.

    ReplyDelete