Friday, March 11, 2016

Píratar eru borgaralegur flokkur

Það er í raun ekkert skrítið við það að Píratar sópi svona að sér fylginu eins og undanfarið. Það er eins og þeir hafi á sér áru sem margir túlka sem eitthvað annað en gamla dótið á Alþingi. Og þeir eru vissulega eitthvað annað, að sumu leyti, -- en ekki eins ólíkir því gamla eins og fólk heldur líklega.

Þeir hafa á sér áru róttækni, áru rökfestu og heiðarleika, jafnvel óttaleysis frammi fyrir gamla kerfinu. Ætli það lýsi ekki ágætlega útbreiddum hugmyndum um þá? -- Nú ætla ég ekki að efa heiðarleika þeirra og óttaleysi. Rökfestan ætla ég hins vegar að sé ofmetin og róttæknin frekar lítil.

Það er tiltölulega lítill vandi að vera rökfastur þegar maður er í stjórnarandstöðu og það þýðir ekki endilega að maður verði það líka í stjórn. Saga Vinstri-grænna sýnir það nokkuð vel. Það er kannski ekki að marka þegar um er að ræða annan flokk -- en afstaða Pírata til ESB afhjúpar einkennilega órökrétta stefnu: þeir segja að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa afstöðu til ESB, heldur fyrst og fremst að tryggja kosningar og að "hlutlausar" upplýsingar liggi fyrir. Hvílík firra. Til að byrja með, þá er það einmitt hlutverk stjórnmálamanna að boða stefnu og reyna að fá fólk til fylgis við hana. En ekki hvað? Í tilfelli ESB eru bara tvær stefnur: með og móti. Það liggja þegar fyrir meira en nægar upplýsingar til að velja þar á milli. Fyrir utan þetta, eru "hlutlausar" upplýsingar ekki til í stjórnmálum, heldur draga þær alltaf dám af þeim farvegum sem þær hafa runnið eftir. Og það er bara lýðskrum að tala um kosningar eins og þær séu heilagur gral, eins og það sé lýðræðislegt að kjósa um loðnar spurningar, eða þá að kjósa um að afnema lýðræðið. Kosningar geta nefnilega vel verið ólýðræðislegar.

Þá er það hin meinta róttækni. Um síðustu helgi héldu Píratar einhvers konar vinnufund um efnahagsmál. Án þess að ég ætli mér að gerast einhver ráðgjafi þeirra, þá hefði þeir átt að halda þannig fund áður en þeir stofnuðu flokkinn. Efnahagsmálin eru burðarbitinn í alvöru stefnuskrá. Flokkur sem er ekki með efnahagsstefnu er bara tækifærissinnaður. Fyrir utan stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar eru ekki nema einn eða tveir flokkar á Íslandi sem ná því máli að vera með alvöru efnahagsstefnu -- það eru Samfylkingin og líklega Sjálfstæðisflokkurinn. Stefnuleysi Pírata í efnahagsmálum sést best á því að þeir rúma anarkista og sósíalista jafnt og krata og jafnvel frjálshyggjufífl. Þessir hópar eru ósamrýmanlegir, nema þeir komi sér saman um eitthvað sem er ekki neitt. Það verður skrítið bragð af grautnum sem þau kokka saman úr því.

Á Íslandi hefur stéttarvitund alþýðunnar hnignað áratugum saman, sem er að því leyti eðlilegt, að hér hefur alþýðan ekki átt nothæfan stéttabaráttuflokk síðan um miðja 20. öld. Það sem lifir af íslensku vinstrihreyfingunni er flest komið á eftirlaun, fyrir utan auðvitað Alþýðufylkinguna. Gagnrýni á kapítalismann er og hefur lengi verið jaðarskoðun á Íslandi. Hana hefur vantað hjá mest áberandi talsmönnum hinna svokölluðu vinstriflokka.

Á þessum tíma hefur áróður borgaralegra og smáborgaralegra hugmynda vaðið uppi og markað djúp, borgaraleg spor í stéttarvitund mjög stórs hluta þjóðarinnar. Sáð eitruðum fræjum. Haldið fast að fólki ranghugmyndum um kapítalisma og um sósíalisma. Sáð einstaklingshyggju, græðgi, smásálarlegri spillingu ... að þessi gildi séu ekki allsráðandi í þjóðfélaginu gæti virst skrítið, en er auðvitað vegna þess að þau eru flestu eðlilegu fólki óeðlileg.

Það hlaut að koma að því að fólk gæfist í massavís upp á annars vegar purrkunarlausum boðberum auðvaldsins, öflunum sem núna eru í ríkisstjórn, og hins vegar á gagnslausri, borgaralegri stjórnarandstöðu sem kallar sig "vinstri" en meinar ekkert með því og hefur ekki upp á neitt annað að bjóða en áframhald kapítalismans, -- og nægir þá að minna á síðasta kjörtímabil.

Það hlaut að koma að því. Og Píratar eru þá í þessari sérstöku stöðu: pólitísk jómfrú, óspillt af valdastólum; eiga skörulega talsmenn sem koma vel fyrir í fjölmiðlum -- og svo með þessa hipp og kúl áru, sem minnir á pönk eða einhvers konar uppreisn. En boðskapurinn, stefnan, kjarninn í stefnuskránni: efnahagsstefnan ... lætur á sér standa. Með öðrum orðum: Píratar bjóða ekki upp á neitt annað en áframhaldandi kapítalisma, alveg eins og hinir flokkarnir á Alþingi.

Þeir eiga örugglega eftir að fá marga menn kjörna á næsta ári. Og þeir munu örugglega taka til í einhverjum úreltum lögum og reglugerðum og margir munu fagna. Þeir munu örugglega koma mörgu góðu til leiðar. Eins og hinir flokkarnir hafa gert þegar þeir hafa verið í stjórn. En þeir munu ekki valda hér þeim nauðsynlegu vatnaskilum í efnahagsstjórn að brjóta auðvaldið á bak aftur, né einu sinni reyna það. Áran er bara ára. Hún er ímynd, meira í ætt við markaðssetningu heldur en pólitík. Hún virðist virka vel, en eftir nokkur ár er ég hræddur um að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum. Og margir aðrir halda örugglega áfram að klappa fyrir þeim eins og fótboltaliði. Eins og er hjá hinum flokkunum.

Á meðan munum við í Alþýðufylkingunni halda áfram að sækja í okkur veðrið með stefnu okkar, sem ein íslenskra stefnuskráa sker sig úr borgaralegu flokkunum með skýrri sýn og efnahagsstefnu, sem vísar veginn út úr kapítalismanum og kreppunni og í átt til jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Öfugt við alla hina flokkana.

No comments:

Post a Comment