Monday, January 18, 2016

Brask með eignir almennings

Norski olíusjóðurinn er útópía sem m.a. borgaralegir vinstrimenn trúa á. Trúa á, að það sé hægt að þjóna langtímahagsmunum alþýðunnar með sjóðssöfnun og fjármálabraski, þótt allur hugsanlegur gróði af slíku komi alltaf á endanum úr vösum alþýðunnar sjálfrar. Þetta er sama hugsunarvillan og trúin á íslensku lífeyrissjóðina byggist á. Trúin á kapítalismann.

Í kapítalisma koma kreppur nokkrum sinnum á hverri meðalstarfsævi. Það er staðreynd. Mundi einhverjum detta í hug að safna matarforða til elliáranna og geyma hann svo í geymslu sem væri vitað að ætti eftir að brenna a.m.k. tvisvar eða þrisvar áður en ætti að éta hann?

Það getur ekkert vaxið endalaust. Það er staðreynd. Hagkerfið getur heldur ekki vaxið endalaust. Þegar af þeirri ástæðu er gróðahlutfallið dæmt til að minnka strax og menn fara að nálgast endimörk vaxtarins. Burtséð frá því krefjast þróaðri atvinnuhættir sífellt meiri fjárfestingar, sem aftur ber fjármagnskostnað, þannig að á þeim enda lækkar gróðahlutfallið líka.

Í tilfelli íslensku lífeyrissjóðanna, þá ávaxta þeir sig að miklu leyti með húsnæðislánum til sjóðsfélaga, á markaðskjörum. Meira en helmingurinn af húsnæðiskostnaði er vextir. Mundi einhver með öllum mjalla borga 100 milljónir fyrir hús sem kostar 40 milljónir? Það hljómar kannski klikkað, en margir gera það samt.

No comments:

Post a Comment