Tuesday, October 11, 2016

Offramboð á hægriflokkum

Í útvarpssal í gær voru viðstaddir, sem sjálfir álitu sig talsmenn vinstriflokkar, spurðir út í muninn á sínum flokki og hinum vinstriflokkunum. Þar svöruðu talsmenn beggja flokkanna sem kenna sig við vinstri: Katrín Jakobsdóttir fyrir VG og ég fyrir Alþýðufylkinguna.

Einnig svaraði Sigríður Ingibjörg fyrir Samfylkingu, sem nýkjörinn formaðurinn hefur sagt að sé hvorki hægri né vinstri. Björn Leví svaraði fyrir Pírata og sagði að þeir væru bæði hægri og vinstri. Laggó. Magnús Þór svaraði fyrir Flokk fólksins, sem hvorki kallar sig hægri né vinstri en allir sjá samt að er almennt með vinstrisinnaðar áherslur. Björt svaraði fyrir Bjarta framtíð, og ef maður gefur sér að þar sé ekki málefnaágreiningur við Samfylkinguna hlýtur það að teljast sanngjarnt.

Athygli vakti að sá ágæti maður Hólmsteinn Brekkan tók ekki til máls fyrir Dögun. Dögun hefur hafnað því að kalla sig vinstriflokk, þótt flestir mundi líklega segja að stefnumálin þeirra séu mjög til vinstri. En það er ákveðið integritet hjá Hólmsteini að taka ekki til máls þótt honum byðist það.

Nú, svo var spurt: En hver er munurinn á öllum þessum hægriflokkum? Það er góð spurning og skondið að hún heyrist ekki oftar. Fjöldi hægriflokkar er kannski eðlilegri heldur en fjöldi vinstriflokka. Hægriflokkar boða leynt og ljóst hagsmuni auðvaldsins, og þeir hagsmunir eru miklu fjölbreyttari heldur en hagsmunir alþýðunnar.

(Frá bæjardyrum Alþýðufylkingarinnar eru auðvitað allir hinir flokkarnir hægriflokkar.)

No comments:

Post a Comment